145. löggjafarþing — 47. fundur,  4. des. 2015.

vopnaburður lögreglunnar.

[14:23]
Horfa

Vilhjálmur Árnason (S):

Virðulegi forseti. Eins og aðrir fagna ég allri umræðu um lögregluna og hennar störf. Umræðan mun upplýsa samfélagið um hvernig lögreglan starfar og af hverju. Allt slíkt mun bara tryggja að lögreglan fái aukið traust. Hún hefur þó mjög mikið traust í dag. Umræðan er til upplýsingar og fræðslu um hvernig þetta er.

Eins og sagt hefur verið mun almenningur ekki fara að sjá þungvopnaða lögreglumenn við skyldustörf samkvæmt því sem við erum að ræða hér. Ef lögreglumenn eru þungvopnaðir hefur mikið gengið á á undan eins og kemur fram í birtum vopnareglum. Það er enginn að fara að sjá þungvopnaða lögreglumenn við störf eftir þetta.

Þá skulum við fara yfir það af hverju við erum í þessari umræðu. Ég tek heils hugar undir það sem hér hefur komið fram og spyr líka: Hvernig styrkjum við lögregluna best? Jú, með því að fjölga almennum lögreglumönnum, auka sýnileika þeirra, auka hverfalöggæslu sem þekkir nærumhverfi sitt. Þannig tökum við best á því. Á sama tíma og við gerum það, og við höfum verið að forgangsraða í það með auknum fjármunum til lögreglunnar, með því að fjölga lögreglumönnum og það hefur verið markmiðið, getum við ekki horft fram hjá því að ýmisleg hætta getur komið upp og þá verðum við líka að vera tilbúin að takast á við hana. Það er ekki nóg að efla heilsugæsluna til að tryggja heilbrigði landsmanna ef við búumst ekki við að það geti orðið hópslys. Við þurfum að hafa viðbúnað við því þótt við eigum ekki von á slíku á hverjum tíma. Það er það sem hér er í gangi.

Hvernig eigum við að túlka 19. gr.? Hver er þessi sérstaka ástæða fyrir því að vopn eru sett í nokkra lögreglubíla, ekki alla, og með ströngum reglum? Jú, ríkislögreglustjóri hefur verið að reyna að átta sig á hinni raunverulegu hættu. Það er erfitt fyrir almenning og yfirvöld á hverjum tíma að átta sig á raunverulegri hættu. Þess vegna eru öll gögn (Forseti hringir.) ríkislögreglustjóra um áhættugreiningar og veikleikagreiningar birt árlega. Þessi hætta sem við verðum að átta okkur á er hin sérstaka ástæða fyrir því að vopnin þurfa að vera í lögreglubílum.