146. löggjafarþing — 47. fundur,  23. mars 2017.

samgönguáætlun.

[11:36]
Horfa

Theodóra S. Þorsteinsdóttir (Bf):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka fyrir áhugaverða umræðu um samgöngur almennt. Mér finnst áhugaverðara þegar verið er að tala um samgöngukerfið í heild sinni. Við erum auðvitað að tala hér um samgönguáætlun og þann vanda að hún sé ekki fjármögnuð og það hefur áður verið rætt hér. Hins vegar hvað varðar samgöngukerfið í heild sinni þá finnst mér að við þurfum að taka til greina sjónarmið varðandi aðra kosti eins og t.d. flugsamgöngur, hjólreiðar, samgöngur á landsbyggðinni og auðvitað siglingar. Mér finnst oft skorta heildarsýn, heildarstefnumótun og framtíðarsýn hvað varðar samgöngur. Því finnst mér ánægjulegt að það sé verið að vinna hvítbók um almenningssamgöngur á Íslandi þar sem markmiðið er að fá heildstætt yfirlit yfir þau álitaefni sem við ræðum hér hvað varðar samgöngur almennt á Íslandi þar sem hæstv. ráðherra hefur ákveðið að halda áfram þeirri vinnu.

Hins vegar langar mig til að koma örstutt inn á umræðuna um veggjöld. Mér finnst hún áhugaverð. Ég vona að við getum farið í málefnalega umræðu um veggjöld eða notkunargjöld. Ýmiss konar notkunargjöld í samgöngum hafa lengi tíðkast hér á landi eins og hafnargjöld og skipa- og lendingargjöld, ferjugjöld og ýmis önnur gjöld sem hafa verið sett á. Ég hlakka til að sjá niðurstöðuna úr þessum starfshópi og verður spennandi að sjá hvernig umræðan verður í framhaldi af því.