148. löggjafarþing — 47. fundur,  11. apr. 2018.

kvennadeildir Landspítalans.

[15:22]
Horfa

Halldóra Mogensen (P):

Forseti. Þetta er í fyrsta skipti sem ég beini fyrirspurn til hæstv. efnahags- og fjármálaráðherra. Ég er mjög spennt fyrir svörunum. Mig langar að ræða í dag þá grafalvarlegu stöðu sem blasir við á kvennadeildum Landspítalans. Nú þegar hefur talsverður fjöldi ljósmæðra sagt störfum sínum lausum. Heilbrigðiskerfið hefur undanfarin ár þurft að þola síendurtekinn niðurskurð sem hefur bitnað misjafnlega á hinum ýmsu deildum Landspítalans og annarra sjúkra- og heilbrigðisstofnana.

Þrátt fyrir það hafa kvennadeildir Landspítalans, og þá sérstaklega fæðingardeild og meðgöngu- og sængurlegudeild, viðhaldið gæðum heilbrigðisþjónustunnar fyrir nýfædd börn og mæður. Á þessum deildum eru ljósmæður meiri hluti starfsmanna. Störf ljósmæðra eru algerlega nauðsynleg til að tryggja heilbrigði mæðra og barna og eru menntakröfur til þeirra í samræmi við það krefjandi starf sem þær sinna. En einhverra hluta vegna er vinna þeirra ekki metin til fjár.

Nú lítur út fyrir að harðlínustefna ríkisstjórnarinnar í kjaramálum muni bitna allverulega á þessari mikilvægu stétt og þeim mikilvægu deildum Landspítalans sem þær vinna á. Kjaramál ljósmæðra eru í svo miklum ólestri að þær hafa síðastliðnar vikur sagt upp í tugatali. Hæstv. fjármála- og efnahagsráðherra ber ábyrgð á starfsmanna- og kjaramálum ríkisins. Ber hann þá ekki endanlega ábyrgð á því neyðarástandi sem blasir við? Eða er ábyrgðin einhvers annars? Og ef svo er, hvers er hún? Hver ber ábyrgðina?

Það gengur ekki að segja að ábyrgðin sé hjá stéttarfélögunum vegna þess að síðast þegar ljósmæður fóru í verkfall samþykkti fjármálaráðherra lög á verkfallið. Þær fengu ekki að semja. Hefur ráðherra sjálfur sett sig inn í kjaraviðræður ljósmæðra í ljósi þess hve alvarleg staðan er? Eða telur ráðherrann stöðuna yfir höfuð alvarlega? Hefur ráðherra kynnt sér mögulegar afleiðingar þess ef stór hluti ljósmæðra hættir störfum?

Og aftur: Hver ber ábyrgð?