148. löggjafarþing — 47. fundur,  11. apr. 2018.

kvennadeildir Landspítalans.

[15:24]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Virðulegi forseti. Það er dálítið snúið mál að taka kjaraviðræður sem standa yfir upp hér í þinginu og ætla að fara að skiptast á skoðunum um hvernig best sé að leiða þær til lykta. Ég ætla ekki að fara í neina keppni við hv. þingmann um það hvoru okkar þyki vænna um ljósmæður, mér eða hv. þingmanni, mér þykir þær sinna mikilvægum störfum. Ég get bara sagt það eitt að ég er einn þeirra fjölmörgu Íslendinga sem hafa ítrekað (Gripið fram í: Sett lög á þær.) … nú halda ósmekklegheitin áfram hérna. Ég er einn þeirra Íslendinga sem hafa farið upp á fæðingardeild, fjórum sinnum, og það hefur mjög reynt á þá þjónustu sem hér er vísað til. Ég held að ekki fari vel á því að við förum í einhverja keppni um hvert okkar kunni best að meta þá sem hér eiga undir. (Gripið fram í.)

Vandinn sem við er að etja birtist okkur m.a. með þeim hætti að í miðri kjaralotunni þegar kjaraviðræður stóðu ágætlega, og ég hef sett mig inn í hvernig þær standa, þegar svo virtist sem tiltölulega stutt væri á milli manna sem sátu við samningaborðið, var skipt um kúrs hjá viðmælendum samninganefndar ríkisins og öllu því, a.m.k. flestu, sem áður hafði verið rætt um ýtt til hliðar og færðar fram á samningaborðið allt aðrar og nýjar kröfur. Þess vegna hefur ekki tekist að ljúka samningalotunni. Við munum halda áfram að reyna. Það er allt rétt sem hv. þingmaður segir, það er mikilvægt að við komumst að niðurstöðu.

Ég vil þó fá að koma einu að hér undir lokin. Þegar talað er um að gildandi samningar meti viðkomandi stéttir ekki að verðleikum er það nú samt þannig að þeir eiga sér sögulegar rætur og hafa almennt verið samþykktir af viðkomandi stéttarfélögum. Það er staðan. Við eigum ekki að umgangast þá með öðrum hætti en þeim að almennt (Forseti hringir.) séu samningar leiddir fram eftir viðræður sem leiða til samkomulags.