148. löggjafarþing — 47. fundur,  11. apr. 2018.

fjármálaáætlun 2019--2023.

494. mál
[15:57]
Horfa

Ágúst Ólafur Ágústsson (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Það er margt í fjármálaáætluninni sem veldur miklum vonbrigðum og er það í raun nokkurt afrek að uppskera óánægju flestra sem hafa fjallað um hana hingað til, sérstaklega í ljósi þess að um er að ræða samanlögð ríkisútgjöld til fimm ára og því erum við að tala um tæplega 4.500 milljarða útgjöld. Ekki króna er sett í barnabætur til viðbótar. Ekki króna er sett í vaxtabætur, helmingi minna er sett í uppbyggingu leiguíbúða, framhaldsskólinn fær nánast ekkert viðbótarfjármagn á næstu fimm árum og háskólastigið fær minni prósentuhækkun en það sem fyrri ríkisstjórn var búin að ákveða og háskólarnir fá í rauninni einn þriðja af því sem var lofað í stjórnarsáttmálanum og lýtur að OECD-viðmiðinu.

Því er ljóst að það er engin menntasókn hér á ferðinni. Þá er aukningin til aldraðra og öryrkja fyrst og fremst vegna fjölgunar í þeim hópi. Meira að segja samgönguátakið mikla nær ekki einu sinni langtímameðaltali fjármagns í þann málaflokk.

Herra forseti. Vanræksla á ofangreindum atriðum og skattstefna brauðmolakenningarinnar kemur kannski ekki á óvart í tilviki Sjálfstæðisflokksins þótt það ætti að gera það í tilviki Vinstri grænna.

Hin nýafgreidda fjármálastefna fékk 80 athugasemdir og ábendingar frá fjármálaráði og falleinkunn frá flestum hagsmunaaðilum. Þrátt fyrir það vildi meiri hluti fjárlaganefndar ekki gera eina einustu breytingu á stefnunni því ráðuneytið vildi líklega ekki gera breytingar.

Því vil ég spyrja hæstv. ráðherra: Kemur til greina að breyta fjármálaáætlun í meðförum þingsins komi til mikillar gagnrýni á hana og þá ekki síst á þá vondu hagstjórn sem þar birtist þar sem lækka á skatta á sama tíma og útgjöld eru aukin?