148. löggjafarþing — 47. fundur,  11. apr. 2018.

fjármálaáætlun 2019--2023.

494. mál
[16:36]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Varðandi ummæli úr umræðunni frá því á síðasta ári þá verð ég aðeins að setja það í rétt samhengi. Það var verið að tala um að ekki væri nægilega miklu eytt. Ég var að svara gagnrýni um það að ekki væri verið að auka útgjöldin nógu mikið, ekki nógu mikið. Þá lét ég þau orð falla að ef eitthvað væri þá værum við að tefla á tæpasta vað með útgjaldavöxtinn, þess vegna væri áætlunin kannski síst of aðhaldssöm.

Varðandi aðhaldsstigið sem við erum að starfa eftir og hvort við hefðum mögulega átt að setja inn í fjármálaregluna útgjaldareglu eins og nokkuð var rætt um og kom fram í nefndaráliti fjárlaganefndar á sínum tíma að það hefðu verið vangaveltur í nefndinni um að bæta við fjármálaregluna sérstöku útgjaldaþaki, þannig t.d. að útgjöldin mættu aldrei vaxa fram úr landsframleiðslu. Það var mat okkar á þeim tíma að ekki væri ástæða til þess og hv. þingmaður segir: Nú hefur það sýnt sig að útgjöldin hafa fengið að vaxa svo og svo mikið. Þau hafa vissulega vaxið mikið, en við höfum verið að verja þeim til góðra málefna. Ef við horfum á ríkisfjármálin í heild sinni þá er enn þá gott jafnvægi. Þetta er reist á traustum grunni. Útgjaldaaukningin, ef við horfum til dæmis á samneysluna, hvernig hún er að þróast á þessu áætlunartímabili í hlutfalli af landsframleiðslu, þá er línan nokkuð flöt þrátt fyrir útgjöld. Hvað er að gerast? Við erum einfaldlega að verða efnaðri sem þjóð. Við erum að geta gert betur. Við erum þjóð sem getur keypt dýrari lyf, stutt betur við aldraða og öryrkja, rekið betri heilbrigðisþjónustu, tekið betur þátt í greiðsluþátttöku sjúklinga, sett meiri fjármuni í vegamál og menntamál o.s.frv. án þess að sliga ríkið efnahagslega, vegna þess að meiri tekjur eru að koma inn.

Þannig hafa til dæmis á tekjuhliðinni stórkostlegir hlutir verið að gerast. Frá 2015 til 2018 fara tekjurnar í tekjuskatti einstaklinga upp um 40%. (Forseti hringir.) Þessu erum við að verja aftur til samfélagsins, hlúa betur að samfélaginu. Sama er að gerast í virðisaukaskattinum. (Forseti hringir.) Rétt tæplega 35% aukning í tekjum virðisaukaskatts frá 2015–2018. Við skilum því aftur út í samfélagið.