148. löggjafarþing — 47. fundur,  11. apr. 2018.

fjármálaáætlun 2019--2023.

494. mál
[18:05]
Horfa

Ólafur Ísleifsson (Flf) (andsvar):

Frú forseti. Hv. þingmaður kom víða við í sinni yfirgripsmiklu og vönduðu ræðu. Ég geri mér fyllilega grein fyrir því að þegar menn taka höndum saman í ríkisstjórnarsamstarfi þarf að ná málamiðlunum. Það á auðvitað við í þessari ríkisstjórn eins og öðrum.

Hv. þingmaður gerði heilbrigðismál ásamt öðru að sérstöku umræðuefni. Af því tilefni langar mig til þess að beina til hans fyrirspurn varðandi fyrirhugaða byggingu Landspítala við Hringbraut. Ég tel að það sé mál sem snúi sérstaklega að flokki hv. þm. Willums Þórs Þórssonar sem í aðdraganda kosninga gaf það minnsta kosti mjög sterkt til kynna að hann gæti hugsað sér aðrar lausnir á húsnæðismálum spítalans en að halda áfram uppbyggingu við Hringbraut. Þannig var til að mynda fulltrúi frá flokki hans sem gaf þetta mjög sterklega til kynna á fjölsóttum fundi samtaka um betri byggð sem haldinn var í Norræna húsinu í aðdraganda kosninga.

Nú standa menn hins vegar frammi fyrir því að málefnalegar umræður um þetta mál sem eru byggðar á þáttum eins og byggingarmagni, aðkomuleiðum, umferðaræðum, kostnaði við að byggja í þessum þrengslum miðað við það að byggja mun ódýrar annars staðar. Það er jafnframt óhemjukostnaður við að tengjast byggingum sem eru fyrir á svæðinu og eru sumar illa haldnar af raka og myglu. Gagnvart þessari málefnalegu umræðu fæst bara það svar að þeir sem halda uppi slíkri gagnrýni séu að fresta þessari framkvæmd um 10–15 ár. Ég vil hins vegar spyrja hv. þingmann hvernig hann geti varið það að þessum framkvæmdum skuli verða haldið áfram að þeirri hörku og ósveigjanleika sem raun ber vitni.