149. löggjafarþing — 47. fundur,  11. des. 2018.

samskiptaráðgjafi íþrótta- og æskulýðsstarfs.

417. mál
[22:54]
Horfa

mennta- og menningarmálaráðherra (Lilja Alfreðsdóttir) (F):

Virðulegi forseti. Hér verður mælt fyrir frumvarpi til laga um samskiptaráðgjafa íþrótta- og æskulýðsstarfs. Frumvarpið er samið í mennta- og menningarmálaráðuneytinu í kjölfar yfirlýsinga og frásagna íþróttakvenna undir myllumerkinu #églíka. Um er að ræða eina af tillögum starfshóps sem skipaður var í kjölfar #églíka en hópurinn skilaði einnig fleiri tillögum sem snerta ýmsa aðila sem koma að íþrótta- og æskulýðsstarfi, svo sem íþróttahreyfinguna, æskulýðsfélögin, sveitarfélög og stjórnvöld. Það er mikilvægt að þessir aðilar séu samtaka um aðgerðir á þessu sviði, en stefna okkar er skýr; öryggi iðkenda á að vera í fyrirrúmi.

Eins og vel er þekkt sögðu fjölmargar konur frá framkomu sem þær hafa mátt þola kyns síns vegna á samfélagsmiðlum undir myllumerkinu fyrir um ári. Síðan þá hafa endurtekið komið upp atburðir sem sanna að jafnréttisbaráttan er ekki nógu langt komin og því talsvert verk enn óunnið á þessu sviði.

Frásagnir íþróttakvenna voru, líkt og frásagnir annarra kvenna, margar og alvarlegar. Þar var lýst margs konar ofbeldi, áreitni, mismunun, niðurlægingu og annars konar misrétti sem konur hafa mátt þola í heimi íþrótta. Frásagnirnar voru margar hverjar alvarlegar þar sem þær vörðuðu brot á ákvæðum almennra hegningarlaga og mörg tilvikin áttu sér stað þegar konurnar voru undir 18 ára aldri.

Þrátt fyrir að frásagnir íþróttakvenna hafi verið kveikjan að frumvarpi þessu var ákveðið við samningu þess að láta það hafa víðtækara gildissvið svo það næði til samtaka og félaga sem standa fyrir íþrótta- og æskulýðsstarfi. Slíkt starf er mjög viðamikið á Íslandi. Í því samhengi er vert að nefna að samkvæmt tölum frá ÍSÍ frá árinu 2017 stunduðu tæplega 100.000 manns á öllum aldri íþróttir innan íþróttahreyfingarinnar og er stór hluti þess hóps börn og ungmenni.

Í greinargerð sem fylgir frumvarpinu er vísað til nokkurra rannsókna og greina sem sýna fram á að aðstæður við íþróttaiðkun eru oft með þeim hætti að sérstök hætta skapast á að iðkendur verði fyrir ofbeldi eða valdbeitingu í tengslum við ástundunina þar sem gerandi er oft valdamikill aðili, svo sem þjálfari. Því miður má sjá að niðurstöður þessara rannsókna eru í samræmi við frásagnir íþróttakvenna á Íslandi.

Þess ber að geta að íþróttastarf á Íslandi er afskaplega uppbyggilegt og í langflestum tilvika gengur það mjög vel. En hins vegar er með þessu frumvarpi, sem mælt er fyrir, lagt til að stofnað verði tímabundið til starfs samskiptaráðgjafa íþrótta- og æskulýðsstarfs með það að markmiði að umhverfi slíks starfs verði öruggt og að börn, ungmenni og fullorðnir, óháð kyni og stöðu að öðru leyti, geti stundað íþróttir eða æskulýðsstarf og leitað sér aðstoðar vegna atvika eða misgerða sem þar koma upp, án ótta við afleiðingarnar.

Virðulegi forseti. Vík ég nú að einstökum greinum frumvarpsins. Í 1. gr. er gildissvið þess skilgreint. Með ákvæðinu er kveðið á um að starfssvið samskiptaráðgjafa nær til skipulagðrar starfsemi á vegum ÍSÍ, UMFÍ, æskulýðssamtaka sem starfa á grundvelli æskulýðslaga og aðila sem gera samninga við það ráðuneyti sem fer með íþrótta- og æskulýðsmál um rekstrarframlag vegna sambærilegrar starfsemi.

Með 2. gr. er kveðið á um markmið frumvarpsins, sem er að íþrótta- og æskulýðsstarf fari fram í öruggu umhverfi og að börn, unglingar og fullorðnir, óháð kynferði og stöðu að öðru leyti, geti stundað íþróttir eða æskulýðsstarf og leitað sér aðstoðar eða réttar síns vegna atvika og misgerða sem þar koma upp án ótta við afleiðingarnar.

Í 3. gr. frumvarpsins er að finna orðskýringar.

Með 4. gr. frumvarpsins er kveðið á um að starf samskiptaráðgjafa verði sett á fót tímabundið og gerðar þær kröfur sem samskiptaráðgjafi þarf að uppfylla hvað varðar menntun og reynslu til að geta gegnt starfinu.

Virðulegur forseti. Ég vil að lokum þakka öllum þeim konum sem stigu fram og sögðu sögu sína. Einnig vil ég þakka starfshópnum fyrir frábæra og framúrskarandi vinnu. Þetta frumvarp er umbótamál fyrir íþrótta- og æskulýðsstarf í landinu og ég er sannfærð um að það muni leiða til aukins öryggis iðkenda í slíku starfi. Ég vísa hér með frumvarpinu til allsherjar- og menntamálanefndar.