150. löggjafarþing — 47. fundur,  17. des. 2019.

fæðingar- og foreldraorlof.

393. mál
[11:41]
Horfa

Þorsteinn Víglundsson (V) (andsvar):

Virðulegur forseti. Það má vel vera að hæstv. félags- og barnamálaráðherra hafi aðra skoðun á þessu máli en hæstv. forsætisráðherra sem lagði fram þingsályktunartillöguna um aðgerðaáætlun í jafnréttismálum. Meiri hluti velferðarnefndar krefst þess eftir sem áður af þinginu að þingið skipti um skoðun yfir nótt. Þingið samþykkti í gær aðgerðaáætlun sem felur í sér fimm, fimm, tveir skiptinguna en þessi tillaga felur í sér að verði ekkert frekar að gert verði þessi skipting fjórir, fjórir, fjórir sem að mínu viti væri stærsta afturför í jafnréttismálum um áraskeið. Það er alveg ljóst að í dag er skiptingin þrír, þrír, þrír og feður taka þrjá mánuði að meðaltali og mæður sex. Ef skiptingin yrði fjórir, fjórir og áfram sú kjararýrnun sem orðið hefur á fæðingarorlofinu á undanförnum árum er alveg einboðið að skiptingin yrði átta, fjórir. (Forseti hringir.) Það yrði stærsta skref aftur á bak fyrir konur á vinnumarkaði um árabil. Það er hneyksli að meiri hluti velferðarnefndar leggi fram þessa tillögu.