150. löggjafarþing — 47. fundur,  17. des. 2019.

fjáraukalög 2019.

364. mál
[15:06]
Horfa

dómsmálaráðherra (Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir) (S) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Mig langar að nýta tækifærið og fagna því að hér er m.a. verið að lögfesta að fjármunir vegna alþjóðlegrar samvinnu lögreglunnar sem runnu til ríkissjóðs fari sérstaklega til lögreglunnar. Ríkissjóður fékk 15% heildarávinnings af máli, rúmlega 355 millj. kr., og hér er lögfest að þeir fjármunir renni í sérstakan löggæslusjóð og munum við veita úr honum til að efla lögregluna í landinu, m.a. með tækjabúnaði, enda hefur lögregluna skort að einhverju leyti nauðsynlegan búnað til að standa eins vel og kostur er að aðgerðum gegn skipulagðri brotastarfsemi. Alþjóðleg samvinna verður mikilvægari og mikilvægari þegar landamæri brota verða óskýrari og óskýrari og skipulögð glæpastarfsemi líkt og þessi er stöðvuð með aðkomu fleiri ríkja og góðri samvinnu sem er mikilvægt að við sinnum, líkt og önnur ríki.