151. löggjafarþing — 47. fundur,  21. jan. 2021.

lögreglulög o.fl.

365. mál
[12:08]
Horfa

dómsmálaráðherra (Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir) (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Þetta eru fínar vangaveltur um þessar breytingar. Nefndin er auðvitað fyrst og fremst óháð og hefur valdheimildir til að taka rökstudda afstöðu til kvartana sem henni berast með þessum breytingum og það er mjög mikilvægt. Síðan er það hin meinta refsiverða háttsemi, sem hv. þingmaður kemur inn á, sem tekin er til meðferðar og rannsóknar hjá öðru embætti, eða saksóknara. Ég held við séum að styrkja aðkomu héraðssaksóknara með því að leggja til að það verði lögfest að rannsókn meints brots hefjist án tafar. Við erum bæði að flýta og styrkja þá aðkomu héraðssaksóknara. Það er auðvitað mjög mikilvægt að hún sé sjálfstæð og að lokinni rannsókn er það hjá héraðssaksóknara hvort hún endar í ákæru eða hvort málið er fellt niður eða eftir að sýknudómur hefur fallið hjá dómstólum, þá fer málið jafnframt til nefndarinnar. Ég held að þetta fyrirkomulag, með þessum breytingum, tryggi þetta sjálfstæða og óháða eftirlit og á sama tíma vandaðri og hraðari málsmeðferð sem borgarar hafa verið að kalla eftir.

Aðkoma héraðssaksóknara að lögregluráði var eitt af þeim atriðum sem var sérstaklega skoðað. Það var talið mikilvægt á þeim samráðsvettvangi að héraðssaksóknari hefði aðkomu að lögregluráðinu upp á hina ýmsu þætti, t.d. til að tryggja betri málsmeðferð í einstökum málum þegar umræða er um til að mynda kynferðisbrotakaflann. Hvar getum við gert betur? Hvar getum við bætt við mannafla o.s.frv.? Ég held að það hafi reynst afar vel á þessu ári en auðvitað er ávallt reynt að hafa, og ég held að með þessu sé verið að styrkja þær stoðir, sjálfstætt og öflugt eftirlit með lögreglunni á báðum sviðum.