151. löggjafarþing — 47. fundur,  21. jan. 2021.

lögreglulög o.fl.

365. mál
[12:18]
Horfa

dómsmálaráðherra (Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir) (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég tek undir með hv. þingmanni varðandi það að vanda þarf til verka. Ég held að hér séum við að stíga varfærin skref sem unnið hefur verið að í rúmlega ár um breytingar á lögreglulögum. Við byrjum með lögfestingu lögregluráðs að efla nefndina um eftirlit og einnig að uppfylla ýmsar skuldbindingar okkar sem við þurfum að gera. Varðandi samvinnu við erlend lögregluyfirvöld þá hefur löggæsla á Íslandi tekið miklum breytingum og þróast ört á síðustu árum. Rannsókn mála teygir sig í sífellt meira mæli þvert yfir landamæri og jafnvel heimsálfur og því er nauðsynlegt að lögreglan eigi gott og gagnkvæmt samstarf, ekki aðeins við lögregluyfirvöld annarra ríkja heldur einnig alþjóðastofnanir á sviði löggæslu. En það er alveg skýrt að þetta er alltaf undir stjórn íslenskra lögregluyfirvalda. Þetta er aðstoð við verkefni hér á landi ef þörf er á, eins og ég hef bent á, og valdbeitingarheimildir eru ávallt hinar sömu eða takmarkaðri heldur en þær sem íslensk lögregla fer með. Hv. allsherjar- og menntamálanefnd tekur þetta auðvitað til nánari skoðunar.

Það eru að sjálfsögðu skýrar reglur í gildi um meðhöndlun skotvopna og annarra vopna, sem mér skilst að hv. þingmaður sé að vísa í. En þær eru t.d. núna birtar opinberlega og eru aðgengilegri en áður. Til þess að geta fullgilt Prüm-samkomulagið, sem við skrifuðum undir árið 2008, um eflingu á samstarfi í löggæslu, er gert ráð fyrir að það sé aðstoð á milli landa þannig að eitt ríki tekur á móti lögregluliði frá öðru ríki í neyðartilvikum eða einstökum málum, sem dæmi, þegar verið er að sinna réttarbeiðnum.