151. löggjafarþing — 47. fundur,  21. jan. 2021.

lögreglulög o.fl.

365. mál
[12:22]
Horfa

dómsmálaráðherra (Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er alveg ljóst, og ég tek undir það sem hv. þingmaður segir, að þetta eigi að vera svipað innleitt hér og annars staðar og vert fyrir nefndina að skoða það, þ.e. til þess að fullgilda þetta samkomulag sem mörg lönd eru aðili að. Varðandi að það þurfi heildstæða og fulla endurskoðun á öllum lögunum þá er auðvitað ýmislegt sem þarf að laga í lögreglulögunum. Hér held ég að sé verið að stíga varfærið og mikilvægt skref í takt við það sem hv. þingmaður sagði í fyrra andsvari um að það þyrfti að vanda til verka og stíga varlega til jarðar. Hv. þingmaður óskar síðan líka eftir fullri endurskoðun á allri löggjöfinni. Ég held að við séum að gera mikilvægar breytingar sem síðan þarf að fylgja eftir með áframhaldandi skoðun á lögunum og betrumbótum.

Hvað varðar eftirlit er aðalatriðið auðvitað að á meðan á dvöl erlendra lögreglumanna stendur eru þeir undir stjórn og leiðsögn viðkomandi lögreglustjóra og það er ávallt þannig að ríkislögreglustjóri ákveður hvort erlendir lögreglumenn hér á landi skuli fara með lögregluvald. Ríkislögreglustjóri fer með málefni lögreglu fyrir ráðherra og allir erlendir lögreglumenn hér á landi munu aðeins starfa undir stjórn íslenskra lögregluyfirvalda. Bandarískir lögreglumenn koma ekki hingað bara á grundvelli Prüm og starfa eftir sínum reglum. Lögreglumenn koma aðeins hingað á grundvelli þessa samkomulags og bandarískir lögreglumenn falla ekki einu sinni undir það, af því að Prüm-samkomulagið er samstarf Schengen-ríkja. Það má líka vísa í að það verður síðan reglugerðarheimild þar sem gert er ráð fyrir að þetta verði frekar reglufest. Það er því ekki þannig að við séum að fá hingað fulla vél af bandarískum lögreglumönnum sem geta leikið lausum hala. Þvert á móti er þetta mjög mikilvægt samstarf við önnur lögregluríki á grundvelli Prüm-samkomulagsins sem felst í samstarfi Schengen-ríkja og verður ávallt undir stjórn íslenskrar lögreglu.