151. löggjafarþing — 47. fundur,  21. jan. 2021.

lögreglulög o.fl.

365. mál
[12:25]
Horfa

Þórhildur Sunna Ævarsdóttir (P):

Virðulegur forseti. Við ræðum hér breytingu á lögreglulögum sem felur í sér mikilvægar breytingar á starfsemi lögreglu og mikilvægar breytingar á eftirliti með störfum lögreglu. Frumvarpið er að einhverju leyti afleiðing af þingsályktunartillögu sem lögð var fram af hálfu Pírata og fjallaði um sjálfstætt eftirlit með störfum lögreglu, og er fagnaðarefni að nú standi til að gera bragarbót í þessum efnum enda hefur lengi verið kallað eftir því.

Ég tel að með þessari breytingu sé ekki nóg gert til þess að tryggja sjálfstætt eftirlit með störfum lögreglu. Fyrir því hef ég nokkrar ástæður. Mig langar að byrja á að tala um hvað kveikti einlægan áhuga minn og ástríðu fyrir því að sjálfstæðu eftirliti skyldi komið á með starfsemi lögreglu hér á Íslandi. Það má rekja aftur til Hraunbæjarmálsins svokallaða, þegar andlega veikur maður féll fyrir hendi lögreglu árið 2013, en segja má að halda hefði mátt töluvert betur á málum og standa betur að aðgerðum það umrædda kvöld. Ég hef enn efasemdir um að allt hafi verið gert til að tryggja að þessi maður missti ekki lífið eins og stjórnvöldum ber skylda til að gera, þar á meðal lögreglu.

Ríkissaksóknari fór með rannsókn þess máls á sínum tíma og sendi um það leyti bréf til innanríkisráðuneytisins þar sem bent var á, sem ég var líka dugleg við að benda á á þeim tíma, reyndar sem óbreyttur pistlahöfundur en nýútskrifaður lögfræðingur sérhæfður í mannréttindavernd, að betur færi á því að sjálfstæð eining færi með eftirlit með störfum lögreglu. Mig langar að vitna aðeins í bréfið frá ríkissaksóknara til innanríkisráðuneytisins frá árinu 2014, með leyfi forseta:

„En til að auka tiltrú borgaranna á að kærur þeirra og kvartanir vegna aðgerða og aðferða lögreglu fái hlutlausa og réttláta málsmeðferð telur ríkissaksóknari heppilegra að sjálfstæð eining, utan við og án tengsla við lögregluna, sjái um meðferð þeirra mála. Í þessu sambandi er á það bent að náið samstarf er með lögreglu og ríkissaksóknara í sakamálum sem lögregla rannsakar og ríkissaksóknari hefur ákæruvald í og eru lögreglumenn oftar en ekki vitni ákæruvaldsins í alvarlegum sakamálum.“ — Þetta á líka við um héraðssaksóknara sem núna fer með þetta vald, fer með þessa ábyrgð. — „Ekki verður heldur fram hjá því litið að ríkissaksóknari fer með ákæruvald í málum sem varða brot gegn valdstjórninni,“— sem er einmitt það sem ég var að vísa til í máli mínu við hæstv. ráðherra í andsvari hér áðan — „skv. 1. mgr. 106. gr. almennra hegningarlaga og er þar einkum um að ræða brot gegn lögreglumönnum. Sú staða kemur oft upp að til verða sakamál á báða bóga vegna afskipta lögreglu af borgurunum þar sem t.d. átök á milli lögreglu og borgara leiða til meiðsla hjá báðum aðilum.“

Hér vísar ríkissaksóknari í Hraunbæjarmálið sem ég var að vísa í:

„Nýlegt atvik sem átti sér stað í Hraunbæ í Reykjavík, þar sem lögregla banaði manni með skotvopni, er dæmi um tilvik sem fjallað er um í 2. mgr. tillögunnar.

Greinargerð ríkissaksóknara um það mál fylgir bréfi þessu. Einnig má hér nefna tilvik þegar handteknir menn hafa látist í fangaklefa, en þau mál hafa verið til rannsóknar hjá ríkissaksóknara án þess að uppi sé í raun grunur um refsiverð brot lögreglu. Hins vegar er nauðsynlegt að fara mjög nákvæmlega yfir allar aðgerðir lögreglu með gagnrýnum hætti í þeim tilvikum þegar maður lætur lífið eða verður fyrir stórfelldu líkamstjóni vegna aðgerða lögreglu, eða á meðan viðkomandi var í vörslu lögreglu, þrátt fyrir að ekki sé uppi grunur um refsiverða háttsemi af hálfu lögreglumanna.

Ekki er síður mikilvægt að fjallað sé með vönduðum hætti, hjá óháðum eftirlitsaðila, um þær kvartanir sem borgararnir hafa uppi vegna starfsaðferða lögreglu.“

Hér erum við komin að þessum mikilvæga punkti, virðulegi forseti, þ.e. þegar kemur að ætluðum brotum lögreglumanna er svo mikilvægt að um sjálfstæðan eftirlitsaðila sé að ræða. Það er vegna þess að ekki er nóg að réttlætið sé framkvæmt heldur verður það einnig að líta út fyrir það. Það er mjög mikilvægt þegar kemur að þessari stofnun, lögreglunni, sem hefur heimild til valdbeitingar, að það sé enginn vafi um sjálfstæði þeirrar eftirlitsstofnunar sem á að rannsaka ætluð brot lögreglumanna og þá erum við sérstaklega að tala um atvik þar sem einstaklingar láta lífið í vörslu lögreglu eða í kjölfar aðgerða lögreglu. Það er ekkert mikilvægara en að rannsókn á slíkum málum sé hafin yfir allan vafa og t.d. í Hraunbæjarmálinu, sem ég vísa í, þá sit ég enn uppi með ákveðinn vafa. Það er að stóru leyti vegna þess að það var ekki sjálfstæður rannsóknaraðili sem fór með rannsókn þess máls að sá efi situr enn í mér a.m.k.

En höfum það á hreinu, svo að ég endurtaki það sem ég endurtók oft þegar ég var að fjalla mikið um það mál, að ég hef engar efasemdir um að þeir lögreglumenn sem voru á vettvangi og voru sendir þarna inn hafi ekki gert allt rétt þegar að því var komið; það var aðdragandinn og allt í kringum það sem vekur upp alvarlegar spurningar um verklag lögreglu. Þess vegna þykir mér leitt að sjá ekki að einhver vinna hafi verði lögð í að greina hvort ekki mætti koma á sjálfstæðara eftirliti með lögreglu. Gott og blessað að þessi nefnd fái skýrari heimildir til að álykta um starfshætti lögreglu en hún fjallar ekki um ætlaða refsiverða háttsemi lögreglu og þar liggur hundurinn grafinn. Það er mikilvægasti þátturinn. Þar er mikilvægast að sjálfstæði sé algert.

Það fer ekki vel á því að hafa þessi tvö verkefni, brotin gegn valdstjórninni og ætluð brot lögreglumanna í starfi, eins og ríkissaksóknari benti sjálf á, á sama stað. Þess vegna hefði ég viljað sjá betur á málum haldið. Ég hefði viljað sjá okkur setja upp sjálfstæða stofnun, breyta þessari nefnd í sjálfstæða stofnun sem hefur rannsóknarvald og helst ákæruvald líka. Þannig horfir málið við mér. En við þokumst samt sem áður áfram og erum að styrkja eftirlit með störfum lögreglu og því ber auðvitað að fagna. Ég vildi koma þessu að hér í 1. umr. og vekja athygli hv. allsherjar- og menntamálanefndar á því að við höfum þetta í huga við vinnslu málsins í nefndinni.

Mig langar líka aðeins að fjalla um það atriði að færa erlendum lögreglumönnum lögregluvald. Mér finnst þetta alls ekki nógu vel afmarkað. Mér finnst það alls ekki nógu vel skilgreint hvað þetta felur í sér og mér finnst einmitt eftirlitið með þessu vera mjög óskýrt. Ég myndi vilja byrja á því að spyrja: Hver ber ábyrgð á brotum erlendra lögreglumanna í starfi hér á Íslandi? Hvernig verður tryggt að erlendir lögreglumenn, sem gerast uppvísir að brotum í starfi, verði dregnir til ábyrgðar fyrir það brjóti þeir af sér hér á Íslandi? Hvaða reglur munu gilda um vopnaburð erlendra lögreglumanna sem mega fara með lögregluvald á Íslandi? Og hvað gerist t.d. ef erlendur lögreglumaður myndi skjóta íslenskan borgara? Hvernig færum við að því að greiða úr slíkri flækju? Mér fyndist a.m.k. mjög mikilvægt að við værum búin að velta öllum þessum spurningum fyrir okkur. Við værum búin að afmarka hvað myndi gerast og við værum a.m.k. búin að skilgreina nákvæmlega hvað lögregluvald felur í sér og hvernig hægt er að skipta því niður í mismunandi einingar og hvaða skilyrði þurfi að vera fyrir hendi til að hluti af lögregluvaldi sé veittur eða allt lögregluvaldið, og þá nákvæmlega hvað það þýðir. Ég hef ekki fundið skilmerkilega né skýra skilgreiningu á því nákvæmlega hvað felst í því. Þótt auðvitað megi leiða það af hinum lögbundnu hlutverkum lögreglunnar o.s.frv. finnst mér ekki skýrt nákvæmlega hvað þetta þýðir og hvernig hægt er að skipta því upp og hvernig haft verður eftirlit með erlendum lögreglumönnum sem fá þetta vald í hendur, sér í lagi fyrst við erum ekki komin með, að ég tel, fullnægjandi sjálfstætt eftirlit með störfum lögreglu.

Mikilvægi þess að hafa sjálfstætt eftirlit með störfum lögreglu er að ég tel óumdeilt, og þetta hefur lögreglan sjálf margsinnis sagt, og er til þess fallið að auka traust til lögreglunnar, auka trúverðugleika um störf lögreglunnar og auðvelda lögreglunni störf sín. Um leið og við erum komin með sjálfstæðan eftirlitsaðila sem virkar trúverðugur og uppfyllir allar alþjóðlegar kröfur um sjálfstætt eftirlit með störfum lögreglu er lögreglan líka miklu öruggari í öllum sínum störfum vegna þess að hún getur vísað til óumdeilanlegra eða a.m.k. illvefengjanlegra niðurstaðna sjálfstæðrar eftirlitsnefndar um að það hafi verið allt í lagi með það sem lögreglan gerði. Ég tel það setja lögregluna í sterkari stöðu, ekki veikari, að haft sé raunverulegt sjálfstætt eftirlit með störfum lögreglu.

Ég vona að við berum gæfu til þess að stíga skrefið til fulls og koma á virku réttarríki þar sem raunverulegt sjálfstætt eftirlit með störfum lögreglu er staðreynd. Það væri góður dagur.