152. löggjafarþing — 47. fundur,  7. mars 2022.

staðan í Úkraínu, munnleg skýrsla utanríkisráðherra. - Ein umræða.

[17:09]
Horfa

utanríkisráðherra (Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir) (S):

Frú forseti. Þetta er í annað skipti á innan við viku sem boðað er til sérstakrar umræðu hér á Alþingi um skelfilega stöðu mála í Úkraínu. Að þessu sinni fór ég sjálf fram á að fá að flytja þinginu munnlega skýrslu. Er það ásetningur minn að gera mitt besta til að gæta sérstaklega að því að þingheimur fái reglulega tækifæri til að eiga samtal um þá heimssögulegu og skelfilegu atburðir sem nú eiga sér stað í Úkraínu. Þar að auki vil ég leggja áherslu á að ráðuneytið veitir ríkisstjórn, utanríkismálanefnd, þingheimi og öðrum stofnunum og almenningi almennt allar þær upplýsingar sem mögulegt er. Ég mun áfram hafa frumkvæði að slíkri upplýsingagjöf og tel það einfaldlega farsæla leið til að stuðla að því að gott traust ríki.

Líklega höfum við flest upplifað töluvert áfall þegar fréttist af því að rússneskar hersveitir væru farnar yfir landamæri Úkraínu. Það gerðist sem búið var að vara við en flestir vildu síður trúa því að liðsafnaður og undirbúningur Rússa við austurlandamæri Úkraínu og á Krímskaga ásamt svokölluðum æfingum rússneska hersins í Belarús hefðu þann tilgang einan að undirbúa löngu ákveðna innrás í fullvalda ríki, Úkraínu. Ítrekaðar og ákafar yfirlýsingar Rússlandsforseta um að innrás stæði alls ekki til reyndust vera helber blekkingarleikur. Í ljósi þess hversu haldlítil orð hans hafa reynst hingað til verður að teljast varasamt að gera ráð fyrir öðru en að markmið hans sé annað en full og alger yfirráð yfir Úkraínu. Heimurinn er að einhverju leyti í heljargreipum eins manns eða tiltölulega fámennrar klíku í kringum einn mann. Með hverjum deginum sem líður frá ólögmætri innrás Rússa í Úkraínu verða hörmulegar afleiðingar hernaðarins ljósari. Fréttir af glannalegri árás á kjarnorkuver, sviknum fyrirheitum um stundargrið svo að óbreyttir borgarar komist úr umkringdum borgum og árásum á borgaraleg skotmörk í Úkraínu, þar á meðal sjúkrastofnanir, eru nístandi staðfestingar á þeirri glórulausu grimmd sem felst í stríðsrekstri Rússa. Þá eru ótaldar óhugnanlegar hótanir Pútíns um beitingu kjarnorkuvopna.

Ein og hálf milljón manns a.m.k. hefur nú þegar flúið Úkraínu og reiknað er með að allt að 4–5 milljónir muni leita skjóls í nágrannaríkjunum. Í dag bárust fréttir af því að Rússland hafi gefið það út að Ísland sé nú skilgreint sem óvinveitt ríki. Það er ekki alls kostar óvænt en ekki er að fullu ljóst hvaða áhrif yfirlýsingin mun hafa en félagsskapurinn á þeim lista er reyndar ekki slæmur.

Forseti. Íslensk stjórnvöld eru staðráðin í að leggja sitt af mörkum til neyðarviðbragða og þegar hefur verið ákveðið að leggja a.m.k. 300 millj. kr. til mannúðaraðstoðar á vegum stofnana Sameinuðu þjóðanna og Rauða krossins. Þá hefur verið ákveðið að styðja við efnahagslega neyðaraðstoð til úkraínskra stjórnvalda í gegnum Alþjóðabankann með 65 millj. kr. framlagi. Ásamt því að styðja mannúðaraðstoð við landamærin tekur Ísland á móti flóttafólki frá Úkraínu og er verið að undirbúa móttöku flóttamanna á ýmsum vettvangi. Hjálparvilji íslensku þjóðarinnar er gríðarlega mikill og stjórnvöld hafa hug á að stuðla að því að þeim góða vilja og orku sé beint í sem bestan og gagnlegastan farveg. Um þessar mundir blasir við að stuðningur almennings í formi fjárframlaga er gagnlegasta leiðin til að aðstoða úkraínsku þjóðina og mæta neyð hennar.

Öllum ber saman um að stríðsrekstur Rússlandsforseta gengur allt öðruvísi og verr en hann hafði áætlað. Þá blasir einnig við að viðbrögð heimsins eru miklu kraftmeiri en Rússlandsforseti gerði ráð fyrir. Ástandið í Rússlandi fer versnandi. Með réttu eru rússnesk stjórnvöld að verða sífellt einangraðri á alþjóðavettvangi. Þegar atkvæði voru greidd í allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna í síðustu viku voru aðeins Belarús, Erítrea, Norður-Kórea og Sýrland sem ásamt Rússlandi kusu gegn ályktun þar sem innrásin var fordæmd. Í ýmsu fjölþjóðasamstarfi hefur Rússum þegar verið meinuð þátttaka eða þátttökuréttur þeirra verið takmarkaður. Við þessa pólitísku einangrun bætast viðskiptaþvinganir sem virðast vera að bíta. Fregnir af handtöku þúsunda mótmælenda í Rússlandi og freklegum brotum gegn borgaralegum réttindum almennings fela í sér einhverja von um mótstöðu en eru líka uggvekjandi. Tjáningarfrelsi hefur í reynd verið afnumið og jafnvel hugsanafrelsi hefur verið afnumið. Framganga rússneskra stjórnvalda ber ekki aðeins vott um fullkomið skeytingarleysi gagnvart mannslífum, hún er beinlínis atlaga að alþjóðakerfinu í heild. Hér eru ekki bara örlög úkraínsku þjóðarinnar í húfi heldur sú heimsskipan sem hefur fest sig í sessi eftir síðari heimsstyrjöldina sem byggir á virðingu fyrir alþjóðalögum, mannréttindum og helgi alþjóðlegra viðurkenndra landamæra og lögsögu ríkja. Allar þessar aðgerðir gegn Rússlandi eru grafalvarlegar. Pólitíska útskúfunin sem nær inn á svið menningar, menntunar og íþróttalífs er sársaukafull fyrir alla þá sem hafa átt í góðu og gjöfulu samstarfi við rússneska samstarfsfélaga og vini. Hin efnahagslega einangrun bitnar að sjálfsögðu á hinum almenna rússneska borgara sem við eigum ekkert sökótt við. Ekkert af þessu er léttvægt og það er einlæg von mín að Rússland geti sem fyrst átt afturkvæmt í samfélag þjóðanna en til þess að svo geti orðið kemur ekkert annað til greina en algjör viðsnúningur í stjórnarstefnu landsins þar sem öllum ófriði gegn Úkraínu og öðrum löndum yrði umsvifalaust hætt og herlið dregið til baka. Síðastliðinn föstudag sótti ég fund utanríkisráðherra Atlantshafsbandalagsins þar sem m.a. var til umræðu ákall stjórnvalda í Kænugarði um flugbann í kringum Úkraínu. Þetta er ákaflega vandasöm umræða. Öll vildum við óska þess að unnt væri að framfylgja slíku banni án átaka. Hinn kaldi veruleiki er þó sá að slíkt flugbann fæli að öllum líkindum í sér óhjákvæmileg bein átök milli flugherja ríkja sem eiga aðild að Atlantshafsbandalaginu annars vegar og Rússa hins vegar. Á þessari stundu er það yfirvegað mat flestra að slíkt væri einfaldlega of áhættusamt.

Eins og við Íslendingar gerum okkur mætavel grein fyrir lyftum við ekki stærstu byrðunum í því verkefni að streitast á móti árás Rússa en það er ánægjulegt að finna fyrir þeirri eindrægni sem ríkir hér á Íslandi. Við fylgjumst með þróuninni í Úkraínu og fyllumst hryllingi yfir því sem á sér stað en við horfum líka með aðdáun á hugrekki úkraínsku þjóðarinnar. Hugrekki er af skornum skammti í heiminum og því er gjarnan ruglað saman við fífldirfsku og stærilæti. Það er ekki fyrr en á reynir sem raunverulegt hugrekki kemur í ljós og raunverulegt hugrekki er ekki til að hreykja sér af eða skreyta sig með. Þegar raunverulega reynir á hugrekki er það dregið fram með semingi og af illri nauðsyn. Í úkraínsku þjóðinni og forseta hennar sjáum við að sú dyggð sem stendur næst hugrekki er auðmýkt. Zelenskí Úkraínuforseti talaði af auðmýkt þegar hann tók við embætti sínu í maí 2019. Þá vissi hann ekki hvaða örlög biðu hans og þjóðarinnar. Í ræðu sinni þegar hann tók við embættinu ávarpaði hann sérstaklega úkraínska embættismenn og sagði m.a. við þá, með leyfi forseta:

„Ég myndi gjarnan kjósa að þið setjið ekki upp mynd af mér á skrifstofu ykkar. Engar slíkar myndir. Forseti er ekki helgimynd eða skurðgoð. Forseti er ekki heldur andlitsmynd á vegg. Setjið heldur myndir af börnunum ykkar á vegginn, horfið í augu þeirra áður en þið takið ákvarðanir.“

Þessi orð eru töluð áður en stríðið hófst. Heimurinn væri eflaust betri ef fleiri gerðu það að venju sinni að horfast í augu við framtíðina áður en teknar eru afdrifaríkar ákvarðanir. Við höfum heyrt örvæntingarfullt ákall Zelenskí um hjálp nú um helgina. Þar talar maður sem berst fyrir þjóð sinni og fyrir réttum málstað. Öll vildum við geta gert meira. Við viljum gera það sem við getum og það munum við gera. Það er skylda okkar gagnvart úkraínsku þjóðinni sem hefur orðið fyrir tilefnislausri og fólskulegri árás. Það er skylda okkar gagnvart okkar vina- og bandalagsríkjum sem standa með Úkraínu líka. Það er skylda okkar gagnvart þeim hugsjónum sem við trúum á um gott samfélag þar sem lýðræði, frelsi og mannréttindi ríkja. Það er skylda okkar gagnvart okkur sjálfum að láta ekki okkar eftir liggja þegar þörf er á okkur og okkar framlagi. Við erum þjóð meðal þjóða. Í því felast skyldur sem við eigum að rækja af alúð, ábyrgð og fyllstu alvöru og ekki síst af auðmýkt. Við megum ekki láta okkar eftir liggja.