152. löggjafarþing — 47. fundur,  7. mars 2022.

staðan í Úkraínu, munnleg skýrsla utanríkisráðherra. - Ein umræða.

[17:58]
Horfa

Jódís Skúladóttir (Vg):

Frú forseti. Mig langar að byrja á því að þakka fyrir þessa umræðu hér og þakka fyrir gott upplýsingaflæði, sem er gríðarlega mikilvægt fyrir þingheim svo við getum fylgst með stöðunni dag frá degi. Hér er auðvitað sami tónn í öllum þingmönnum. Við erum algjörlega miður okkar yfir þeirri stöðu sem upp er komin, að ráðist sé inn í fullvalda ríki með ofbeldi þar sem fyrst og fremst óbreyttir borgarar, konur og börn, liggja í valnum. Öll getum við samsamað okkur með þessu fólki og fundið til með því, fundið fyrir vanmættinum og viljum af öllu hjarta gera það sem við getum til þess að hjálpa. Sýn okkar þingmanna er kannski ekki alveg einsleit þegar kemur að því hvernig við viljum bregðast við. Ég get tekið undir það að við erum þjóð meðal þjóða. Við eigum að vera í góðum samskiptum, góðri samvinnu við aðrar þjóðir og önnur lönd, en það þarf ekki að vera með samningum eða inngöngu í stór bandalög sem við horfum á stóru myndina. Mér fannst gott að hlusta á hv. þm. Þorgerði Katrínu Gunnarsdóttur. Hún talaði um Evrópusambandið. Þá var mér hugsað til Titanic, skipsins sem gat ekki sokkið, Evrópusambandsins, sem verður sambandið sem kemur í veg fyrir fleiri heimsstyrjaldir, Kárahnjúkavirkjunar, sem virkjunar sem verður til þess að við þurfum aldrei aftur að virkja af því að við fáum nóga orku. Staðan er hins vegar þannig að við erum ekki í Evrópusambandinu en við eigum í gríðarlega góðri samvinnu við okkar nágrannaþjóðir. Við erum með alls konar samninga og auðvitað vinnum við mikið með Evrópusambandinu í gegnum EFTA. En það er mín bjargfasta trú að við eigum að standa utan Evrópusambandsins. Evrópusambandið er auðvitað þannig að eins og í Eurovision eru bara ákveðnar þjóðir sem þurfa ekki að fara í undankeppnina. Þannig virkar Evrópusambandið líka. Þar er ekki jafningjastaða. Við erum ótrúlega fámenn og lítil þjóð sem er gríðarlega rík af auðlindum. Við erum herlaus, við erum friðelskandi. Við höfum samningsstöðu. Við þurfum ekkert að láta innlima okkur í eitthvað til að þurfa að segja já við ákvörðunum miklu stærri ríkja.

Næst langar mig aðeins að tala um varnarsamning við Bandaríkin og mig langar að tala um lýðræðisleg samfélög. Það eru nokkur ár síðan æðsti maður í því ríki vildi taka Grænland og eignast Grænland. Málið er nefnilega það að við lifum í heimi þar sem hvar sem er, hvort sem það er í austri eða vestri, norðri eða suðri, geta alltaf komist til valda, jafnvel á lýðræðislegan hátt, veikir einstaklingar sem hafa gríðarlega hættulega heimssýn og gera allt, þegar þeir eru komnir á þann stað, til að hafa til þess völd að brjóta lýðræðið niður innan frá. Þess vegna held ég að við eigum fyrst og fremst að vinna alltaf út frá diplómatískum lausnum. Við eigum ekki að hvetja til hernaðar. Ég skil sjálf ekki: „Guði sé lof að við erum í NATO þegar það er stríð í Úkraínu.“ Ég held að fyrir fólkið í Úkraínu breyti það ekki miklu að við séum í NATO. Við erum herlaus þjóð, við eigum ekki að styðja við áframhaldandi hernað sem aldrei verður til annars en að það verða fleiri sem falla og liggja í valnum. Við eigum að styðja og styrkja rússneska þjóð til þess reyna að losna við þennan veika mann. Við eigum að standa með lýðræðinu, alltaf. Við eigum alltaf að tala fyrir friði. Við eigum að opna landið fyrir flóttafólki. Við eigum að senda peninga, við eigum að senda mat, við eigum að gera allt sem við getum og sem í okkar valdi stendur. Við eigum ekki að stuðla að frekari stríðsátökum. Það er bara mín bjargfasta trú. Ég veit að mjög margir eru mjög ósammála mér en ég stend við það.

Annað sem mig langar til að tala um er varðandi rússneska sendiherrann. Ég hváði sjálf þegar ég heyrði sendiherra Rússlands á Íslandi tala og ég hef heyrt háværar raddir og ég hef fengið fyrirspurnir eins og: Af hverju er honum ekki vísað úr landi? Af hverju erum við að styðja við orðræðu sem styður við hernað brjálaðs manns í Úkraínu? Ég held að það sé gríðarlega mikilvægt fyrir okkur að halda samskiptum, eins og hefur verið sagt, halda þessum kanal opnum til Rússlands af því að við eigum alls konar undir því. Við eigum sjálf fólk í Rússlandi sem við þurfum að tryggja að sé öruggt. Þetta stríð er ekki bara stríð sem háð er með sprengjum og byssukúlum. Þetta er líka gríðarlega stórt upplýsingastríð okkar og Pútíns. Það sem við sjáum á samfélagsmiðlum er gríðarlegur áróður og hann er beggja vegna. Ég trúi því að þarna hafi brjálaður maður með ægivaldi sínu ruðst inn með hervaldi í frjálst og fullvalda ríki. Það höfum við fordæmt og eigum að gera það. En við verðum líka að átta okkur á því að þetta snýst rosalega mikið um ásýnd. Það eru ekki allar fréttir réttar. Rússneskur almenningur fær ekki réttar fréttir, þar er lokað á samfélagsmiðla, þannig að ég ítreka að við eigum að standa með rússnesku þjóðinni sem heyr ekki þetta stríð við Úkraínubúa.

Að lokum langar mig að segja, af því að hér hefur líka verið minnst á Covid, og ég held að við þekkjum það öll, að við vorum rosalega tilbúin þegar Covid byrjaði, að það var gefið út lag þar sem Þórólfur söng og við vorum öll með og við ætluðum bara að gera þetta saman. En svo varð Covid bara alveg fáránlega langdreginn brandari og við misstum einhvern veginn pínu oft gleðina og urðum ósammála um sóttvarnaaðgerðir og urðum ósammála um mikilvægi hlutanna og forgangsröðun. Ég vil bara ítreka við okkur hér, bæði þingmenn en ekki síst við alla íslensku þjóðina: Stríðið er orðið lengra. Við trúðum því aldrei að það kæmi til þess en það gerðist og það er búið að vera lengra en við héldum að það yrði og það getur jafnvel orðið ótrúlega langt. Ég vil bara brýna það fyrir okkur að við höfum úthald, úthald til þess að missa ekki þessa löngun til að hjálpa, að missa ekki einhvern veginn þráðinn, að verða ekki ónæm fyrir því að sársaukinn er þarna til staðar. Og þó að vikurnar líði og daglegt amstur taki jafnvel við hjá okkur þá verðum við að halda áfram að greiða götu flóttafólks til landsins, við verðum að greiða fyrir því að senda hjálpargögn og peninga og gera það sem við getum gert, til úkraínsku þjóðarinnar af því að það held ég að sé hættulegast, og við sjáum það í styrjöldum um allan heim og höfum haft það í eyrunum í fréttatímanum frá því að við vorum börn, að við getum orðið ónæm fyrir því að heyra hversu margir dóu á vesturbakka Jórdanar. Við verðum að hafa úthald. Við verðum að tala fyrir friði. Við verðum að standa með lýðræðinu. Þannig stöðvum við stríð, ekki með stærra stríði.