Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 47. fundur,  12. des. 2022.

Pólitísk ábyrgð á Íslandi.

[16:05]
Horfa

Halla Signý Kristjánsdóttir (F):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka málshefjanda fyrir þessa umræðu í dag. Það er ávallt nauðsynlegt að staldra við og taka umræðu um pólitíska og siðferðilega ábyrgð. Það er hverjum manni hollt að líta í eigin barm, skoða sinn innri mann og vega og meta orð og gjörðir, hvort sem um er að ræða þingmenn eða ráðherra. Í þessu samhengi langar mig að velta upp hér sannleiksskyldunni, en hún er samofin pólitískri ábyrgð og siðferði. Þessi umræða er stærri að umfangi en einungis salan á Íslandsbanka. Sannleiksskyldan, skyldan til að greina satt og rétt frá, er ekki skrifuð í lög á Íslandi en umboðsmaður Alþingis hefur þó fjallað um mikilvægi hennar. Hvaða úrræði höfum við hér á Íslandi ef þingmenn eða ráðherrar segja ekki satt og rétt frá? Sannleiksskyldan er meginregla fyrir alla opinbera starfsmenn í Danmörku. Þar er lögð áhersla á að skyldan til að segja satt sé miðlæg og mikilvæg fyrir alla opinbera aðila, opinbera starfsmenn og ráðherra. Útgangspunktur sannleiksskyldunnar er að ráðherra, þingmenn og opinberir starfsmenn mega ekki meðvitað eða af gáleysi miðla upplýsingum sem eru rangar eða villandi eða stuðla að því að aðrir geri það, hvort sem er inn á við eða út á við. Oftast þegar rætt er um sannleiksskylduna hérlendis hefur það verið í tengslum við pólitíska ábyrgð ráðherra en pólitísk þingleg ábyrgð veitir ráðherra mikið aðhald. Samkvæmt þingræðisreglunni getur Alþingi eða meiri hluti þess hvenær sem er losað sig við ráðherra sem nýtur ekki lengur trausts. Uppruna þingræðisreglunnar má rekja til þess tíma þegar konungar höfðu einræðisvald við ákvarðanatöku. Sú leið var farin að tryggja réttkjörnum aðilum óbeint vald á þjóðþingum til að hafa áhrif í umboði fólksins í landinu. Málið vandast aftur á móti þegar kemur að pólitískri ábyrgð þingmanna. Hver er pólitísk ábyrgð þeirra á því að segja satt og rétt frá, hvort sem það er hér í pontu eða í fjölmiðlum eða leka mikilvægum skýrslum frá Alþingi? Hver er pólitíska ábyrgðin þá?