Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 47. fundur,  12. des. 2022.

hlutafélög o.fl.

227. mál
[22:11]
Horfa

Arndís Anna Kristínardóttir Gunnarsdóttir (P) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þm. Ásthildi Lóu Þórsdóttur fyrir andsvarið og býð fram þýðingu á orðinu sem hún notaði. Þegar hún sagði „live“ þá átti þingmaðurinn að sjálfsögðu við í beinni útsendingu. (Gripið fram í.) Já, í persónu. Það er alveg ljóst að þegar við erum að nota annað mál en þingmálið sem er íslenska þá getur komið upp ýmiss konar misskilningur hér í pontu. En ég tek áfram undir áhyggjur hv. þingmanns og kalla eftir frekari umræðu um þetta og á fleiri málefnasviðum. Það var nýr veruleiki sem blasti við okkur í faraldrinum sem hefur kennt okkur að fara með tæki sem sannarlega voru til staðar áður en kannski vorum við knúin á ákveðinn hátt til að temja okkur notkun ákveðinnar tækni sem einhver notuðu áður til hægðarauka en mörg sem kunnu það ekki og höfðu ekki tök á því, en eru búin að læra það núna. Og þrátt fyrir að segja megi að við séum búin að ná einhverjum tökum á heimsfaraldrinum þá getum við aldrei vitað hvenær sambærilegar aðstæður koma upp aftur, í ofanálag við loftslagsbreytingar og annað, sem geta gert það að verkum að við eigum erfiðara með að fara á milli staða og annað slíkt. En í ofanálag þurfum við líka að læra að nýta þau tækifæri sem eru í því að allir einstaklingar séu búnir að temja sér þetta og læra á þetta en jafnframt verðum við, líkt og hv. þingmaður bendir á, einnig að gera okkur grein fyrir þeim vandamálum og þeirri áhættu sem skapast við það að taka þessu sem of gefnu. Við sjáum það hérna á nefndarfundum í þinginu, það er mjög freistandi að geta tekið fjarfund þegar maður vaknar of seint á morgnana og annað slíkt, en það er ekki í boði vegna þess að í grunninn eru nefndarfundir trúnaðarfundir og trúnaðar er ekki hægt að gæta í gegnum t.d. Skype.

(Forseti (LínS): Forseti vill koma því að að orðið staðfundur hefur verið notað sem andstæða við fjarfundi í áratugi en fleiri orð hafa verið notuð sem verða ekki endilega öll rakin hér. )