Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 47. fundur,  12. des. 2022.

hlutafélög o.fl.

227. mál
[22:19]
Horfa

Eyjólfur Ármannsson (Flf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þm. Arndísi Önnu Kristínardóttur Gunnarsdóttur fyrir svarið við spurningu minni. Ég er algjörlega sammála henni og ég tel að þetta sé mjög mikill galli á frumvarpinu, að ekki sé farið ofan í hina miklu skerðingu á rétti hluthafa sem frumvarpið felur í sér. Árið 1978 þegar lög nr. 32/1978, um hlutafélög, voru samþykkt þá treysti Alþingi sér ekki til þess að hafa þetta ákvæði og það gekk skemmra. Þar er bara talað um að fresturinn megi ekki vera lengri en þrír sólarhringar. Við erum komin upp í viku núna árið 2022. Miðað við alla réttindabaráttuna sem hefur átt sér stað á þessum tíma, sem eru 44 ár, þá finnst mér ansi hart að skerða rétt hluthafa með þessari breytingu núna þegar Alþingi taldi árið 1978 að hún fæli í sér of mikla skerðingu á rétti hluthafa. Og það er ekkert fjallað um þessa skerðingu í frumvarpinu. Hver er þessi skerðing? Það þarf einhverja greiningu á því, spyrja hvaða rétt við erum að skerða hjá hluthafanum. Jú, það er verið að skerða m.a. það að hann er eigandi hlutafélagsins og hann á ekki að þurfa að tilkynna stjórn að hann ætli að mæta á hluthafafund. Það er eins og þú þyrftir að láta vita að þú ætlaðir að mæta í húsið þitt, inn í þína eign. Hann er handhafi, hann á þarna prósentuhlut. Eitt helsta vandamál á Vesturlöndum og í hinum kapítalíska heimi, í markaðshagkerfi þar sem eru hlutafélög, er svokallaður umboðsvandi, varðandi umboð eiganda til stjórnenda. Stærsta vandamálið í hlutafélagarétti er að stjórnendur taka öll völd af hluthöfunum, þeir ganga bara um þetta eins og þetta sé þeirra eign. Það er ekkert talað um þessa miklu skerðingu. Ég ætla nú ekki að fara að tala beint um mannréttindi hérna en mér finnst þetta vera ansi hart. (Forseti hringir.) Teldi hv. þingmaður ekki rétt að við myndum a.m.k. fara að norrænni löggjöf, taka bara aðalfundinn og hafa skemmri tíma?