Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 47. fundur,  12. des. 2022.

hlutafélög o.fl.

227. mál
[22:50]
Horfa

Eyjólfur Ármannsson (Flf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka hv. þingmanni fyrir ræðu sína sem var mjög fróðleg að mörgu leyti. Ég veit að hann hefur unnið í tæknigeiranum og gott ef hann er ekki forritari. Hann nefndi 7. gr. frumvarpsins þar sem segir, með leyfi forseta:

„4. málsl. 1. mgr. 109. gr. laganna orðast svo:

Ársreikningum og samstæðureikningum skal skilað rafrænt til ársreikningaskrár í samræmi við reglur sem ársreikningaskrá setur.“

Síðan ef maður skoðar athugasemdir við 7. gr. þá segir að í ákvæðinu sé lagt til „að ársreikningum verði skilað rafrænt, þá annaðhvort á pdf-formi eða þegar um örfélög er að ræða í einfaldari útgáfu af ársreikningi sem byggist á skattframtali félagsins. Hér er um að ræða skil á rekstraryfirliti og efnahagsyfirliti byggð á skattframtali félagsins í gegnum vef Skattsins með „hnappnum“.“

Getur hv. þingmaður útskýrt þennan fræga hnapp fyrir mér? Mér finnst vanta allar útskýringar um hvað þessi hnappur þýðir og einnig þetta með pdf-formið. Nú hef ég skilið pdf-form þannig að t.d. gervigreind geti ekki lesið af pdf-formi og með því að skila inn svona rafrænt sýnist mér þetta vera eingöngu til hagsbóta fyrir starfsmenn Skattsins, sem er mjög mikilvægt að sjálfsögðu, að þeir þurfi ekki að fara að skanna inn pappír. En við getum ekkert unnið með þetta rafræna form, er það? Ég get ekki séð að við getum aflað upplýsinga úr þessu pdf-formi.