Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 47. fundur,  12. des. 2022.

hlutafélög o.fl.

227. mál
[23:01]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P) (andsvar):

Herra forseti. Lykilatriðið held ég í andsvari hv. þingmanns var orðið skjal. Þar erum við komin dálítið villur vegar hvað gagnadeilingu varðar. Það að deila gögnum er ekki að deila skjali. Skjal er eitthvað sem þú fyllir með gögnum. Þú byrjar kannski með word-skjal og svo fyllir þú það af gögnum. Gögnin eru málsgreinar, orð og setningar og þess háttar. Það eru gögnin í skjalinu. Þú getur hent skjalinu til hliðar en verið með gögnin áfram óháð skjalinu. Það er það sem er lykillinn í þessu. Við viljum geta deilt gögnum á milli og okkur er sama um skjalið. Það kemur málinu bara ekkert við. Það þýðir að þú ert með upplýsingar í þínu excel-skjal eða eitthvað svoleiðis og þegar þú sendir gögnin til mín þá get ég opnað þau í vafranum mínum, í skjali þar. En gögnin sem eru á bak við eru þau sömu. Þá komum við að hugtökum eins og sniðmáti gagna og þess háttar, xml eins og hv. þm. Gísli Rafn Ólafsson talaði um áðan eða json eða eitthvað svoleiðis, þ.e. skipulaginu á því hvernig gögnin eru merkt. Vefskjal er t.d. með html-merktan texta. Þá er búið að segja: Hérna er titill skjalsins og þar innan við er efni eða gögn þess titils.