Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 47. fundur,  12. des. 2022.

hlutafélög o.fl.

227. mál
[23:23]
Horfa

Lenya Rún Taha Karim (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Mig langar að þakka hv. þm. Eyjólfi Ármannssyni fyrir góða ræðu. Hann kom inn á marga hluti sem ég hafði í alvörunni ekki íhugað fyrr en hann stiklaði á þeim hér. Ég staldraði aðeins við það þegar hv. þingmaður talaði um að takmarka áhættu, með því að takmarka fjárhæðirnar sem hluthafar koma með inn í félagið, ekki satt? Jú. Svo staldraði ég líka við það að lögaðilar séu aðskildir frá eigendum. Nú er ég bara að pæla hvort það samrýmist góðum stjórnarháttum að setja svona miklar skorður á það hvað fólk í félagi má koma með mikið inn í félagið. Hv. þingmaður talaði hér um félagafrelsi og að hlutafélagalýðræði væri ekki skoðað nógu mikið þegar kæmi að þessu frumvarpi. Nú er ég bara að pæla, það að takmarka áhættuna sem hluthafar sjálfir koma með inn í félagið með því að takmarka fjárhæðina sem þau fá að setja í félagið og setja þetta í skorður, erum við þá ekki að ganga smá á félagafrelsi manna? Segjum að ég sé einhver manneskja úti í bæ og mig langar að gerast hluthafi — hvað ef mig langar að leggja milljarð í félagið? Er það ekki bara minn réttur? Er það ekki bara hluti af félagafrelsi sem við ræðum mjög oft hér? Sjálfstæðisflokkurinn hefur lagt meira að segja fram frumvarp um það, þó ekki nákvæmlega um þetta. Ég meina, það er ekki hægt tala um félagafrelsi og virða svo ekki annars konar félagafrelsi. Ég var bara pæla hver skoðun hv. þingmanns, sem löglærður maður, væri á þessum hugleiðingum.