Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 47. fundur,  13. des. 2022.

hlutafélög o.fl.

227. mál
[00:14]
Horfa

Inga Sæland (Flf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Andrési Inga Jónssyni fyrir andsvarið. Þetta er náttúrlega mjög athyglisvert og stórt er spurt þegar því er velt upp hvernig við tökum á móti sérfræðingunum þegar þeir koma fyrir fastanefndirnar og koma með sínar umsagnir og annað slíkt. Það er sjálfsagt eins misjafnt og umsagnirnar eru margar en eitt eiga þær þó sammerkt. Hvernig tekið er á móti þeim fer nákvæmlega eftir því hversu þóknanlegt það er ráðuneytinu, hversu mikið það er í takt og rímar við það sem þegar er búið að gefa sér áður en málið er sett á laggirnar og áður en komið er með málið. Stundum og oftar en ekki verður breyting á þessum málum í meðförum nefndanna en oft er hún snyrting frekar en einhverjar sérstakar efnisbreytingar sem eru langt frá því sem lagt var af stað með þegar málið kemur inn frá ráðherra eða hans ráðuneyti. Tölum t.d. um umsagnir frá sérfræðingum og mér dettur helst í hug frá sérfræðingum SÁÁ sem daglega eru að glíma við alveg gríðarlegan vanda og benda á hvað það raunverulega þýðir að fá ekki það fjármagn sem þarf til þess að geta sinnt ákallinu um þjónustuþörfina. Núna erum við að horfa upp á að í fyrsta skipti á að loka Vogi, sjúkrahúsinu sjálfu, í sumar vegna þess að þau geta ekki rekið það að óbreyttu, og Vík og göngudeildum og öðru slíku, það á bara að skella í lás í sex vikur, sumarfríið er bara tekið þarna, af því að því miður er ekki fjármagn fyrir reksturinn. Það er ekki alveg sama hvaðan hlutirnir koma þegar sérfræðingarnir koma með umsagnir sínar fyrir nefndir.