Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 47. fundur,  13. des. 2022.

hlutafélög o.fl.

227. mál
[00:16]
Horfa

Andrés Ingi Jónsson (P) (andsvar):

Frú forseti. Já, það er gott að hv. þingmaður nefndi dæmi af starfsemi SÁÁ vegna þess að miðað við hvernig viðmót mætir umsagnaraðilum hjá Alþingi þá er kannski skiljanlegt að þeim sé mætt með tómlæti vegna þess að SÁÁ stendur með jaðarsettu fólki í samfélaginu. Það er bara reynsla okkar sem vinnum hér inni og viljum hag þeirra sem höllum fæti standa í samfélaginu sem bestan að það er oft þrautin þyngri. Það er miklu auðveldara fyrir einhverja burgeisa að koma bónleið til þingsins og ná sínu fram. Málið er að ég hélt að Samtök fjármálafyrirtækja og Viðskiptaráð Íslands, þessir hópar, væru akkúrat í náðinni hjá stjórnvöldum.

En mig langaði að víkja að öðru í mínu síðara andsvari. Hv. þingmaður kom svo ágætlega inn á rafræna skráningu hluthafa og það allt saman. Í þessu minnisblaði ráðuneytisins er einmitt komið inn á það að ástæðan fyrir því að það sé svona íþyngjandi fyrir hluthafa í félögum sem ekki eru skráð á markað að falla undir sambærilegt ákvæði og hér er lagt til í 1. gr. frumvarpsins sé sú að þannig félög þurfi „að hafa svigrúm til að undirbúa skráningu hluthafa á hluthafafund, einkum þeirra hluthafa sem búsettir eru erlendis, taka þátt í hluthafafundinum rafrænt og þurfa að skrá sig í gegnum erlenda vörsluaðila fyrir fundinn“. Ég velti því fyrir mér, frú forseti, hvort þetta sé endilega ástæða til þess að fella þennan hóp ekki undir ákvæðið, hvort þetta sé ekki miklu frekar ábending um það frá ráðuneytinu að hér sé pottur brotinn í rafrænni umsýslu hluthafaskrár hjá hlutafélögum, hvort það þurfi ekki bara að gera gangskör í því (Forseti hringir.) að ná þessum upplýsingum öllum rafrænt inn hjá fyrirtækjunum þannig að það sé hægt að boða til hluthafafundar án nokkurs umstangs (Forseti hringir.) svo heitið geti. Samhliða því er hægt að opna hluthafaskrá upp á gátt þannig að við getum aukið gagnsæi í þessum málum.