Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 47. fundur,  13. des. 2022.

hlutafélög o.fl.

227. mál
[00:45]
Horfa

Eyjólfur Ármannsson (Flf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir svarið. Ég veit það ekki heldur, ég veit ekki heldur hvaða vandkvæði þetta eru. Ég get tekið dæmi sem sýnir skilningsleysi mitt enn betur. Á 4. bls. í frumvarpinu, í kafla 2.1.2., Mál til meðferðar á hluthafafundi, þar með talið aðalfundi, segir, með leyfi forseta:

„Í 2. mgr. 86. gr. laga um hlutafélög er sett fram sú meginregla að hluthafar í félögum þar sem hlutir hafa verið teknir til viðskipta á skipulegum markaði skuli skila inn kröfu um að fá mál tekið fyrir á hluthafafundi, eða drög að ályktun til félagsstjórnar, eigi síðar en viku fyrir boðun aðalfundar. Kröfu má gera síðar en þó í síðasta lagi tíu dögum fyrir aðalfundinn.“

Hér er verið að gera þá kröfu til hluthafa í félögum sem eru á skipulegum markaði að skila verði inn kröfu um að fá mál tekið fyrir á hluthafafundinum, það verði að gera það eigi síðar en viku fyrir boðun fundarins. Einstaklingur sem ákveður að koma samdægurs á fund — segir daginn áður: Ég ætla að fara á hluthafafund á morgun — getur ekki einu sinni verið með neina kröfu á fundinum. Ég skil því ekki hvert vandamálið er. Hann getur mætt á fund og greitt atkvæði og búið. Hann getur ekki verið með neinar kröfur því að fresturinn til að skila kröfunum er liðinn. Það virðist því vera að eingöngu sé verið að takmarka atkvæðisrétt hluthafans samkvæmt því hlutafé sem hann á í félaginu. Það finnst mér vera bein aðför að lýðræðinu í hlutafélaginu, bein aðför að rétti hluthafans. Ég get ekki séð hver vandkvæðin eru varðandi undirbúninginn. Allar kröfur eru komnar fram. Það eina sem þarf að gera er bara að greiða atkvæði. Jú, jú, viðkomandi hefur málfrelsi á fundinum og getur talað eins og hann lystir. Það eru takmörk á því eins og er jafnan í fundarstjórn. En er hv. þingmaður sammála mér um að það sé raunverulega bara verið að skerða atkvæðisréttinn og þar með hlutafélagalýðræðið?