Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 47. fundur,  13. des. 2022.

hlutafélög o.fl.

227. mál
[00:48]
Horfa

Arndís Anna Kristínardóttir Gunnarsdóttir (P) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þm. Eyjólfi Ármannssyni aftur fyrir samtalið. Ég játa að ég var ekki búin að koma auga á þetta sem þingmaðurinn nefnir sem er auðvitað ekki til þess fallið að lækka í viðvörunarbjöllunum, ég verð að játa það. Það sem verið er að undirbúa fyrir þessa fundi eru væntanlega tillögur og annað slíkt sem hv. þingmaður hefur núna bent á að þurfi líka að leggja fram með tilteknum fyrirvara, væntanlega með sömu rökum, með þeim rökum að það þurfi að gefa tíma til að undirbúa þessar tillögur fyrir fundinn. Ég verð því bara að játa að ég átta mig engan veginn á þessu og það eru gríðarlega margar viðvörunarbjöllur sem hringja. Það eru mikilvæg réttindi sem er verið að skerða. Það er verið að ganga á rétt fólks til að mæta á fund. Ég velti einmitt fyrir mér hversu smávægileg bón það er að fá að mæta á fund en hversu stór réttindi búa að baki því að geta í raun borið fram þá bón — eða bón, maður ætti náttúrlega bara að geta mætt á alla þá fundi sem manni koma við og þar sem á að ræða hagsmuni manns. Þú mátt bara ekki mæta á fund þar sem á að ræða gríðarlega mikilvæga fjárhagslega hagsmuni þína af því að þú lést ekki vita að þú kæmir á fundinn meira en viku fyrr. Það er algjörlega með ólíkindum (Gripið fram í.) — já, akkúrat. Það er akkúrat, (Gripið fram í.) þingmaðurinn er að koma með fleiri góða punkta úr þingsal. Ég held að við gætum haldið þessari umræðu endalaust áfram vegna þess að við getum ekki gert annað en að fabúlera um það hvaða ástæður gætu legið þarna að baki, þær eru ekki ljósar.