154. löggjafarþing — 47. fundur,  11. des. 2023.

viðskiptaþvinganir og aðrar aðgerðir vegna ástandsins á Gaza.

[15:03]
Horfa

Kristrún Frostadóttir (Sf):

Herra forseti. Hryllingurinn á Gaza kemur okkur öllum við. Síðastliðna tvo mánuði höfum við fylgst með ofbeldinu stigmagnast. Árásir Ísraelshers á saklausa borgara eru meðal þeirra grimmilegustu og umfangsmestu á síðari tímum. Það sem fólkið á Gaza þarf núna er varanlegt vopnahlé. Þar hefur alþjóðasamfélagið brugðist skyldum sínum og það er augljóst að ástandið snertir við almenningi á Íslandi. Skilaboð Íslands voru óljós hér í upphafi með hjásetunni á allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna en í kjölfarið tók Alþingi af skarið og ályktaði um málið þann 9. nóvember. Í ályktuninni eru stríðsglæpir fordæmdir og kallað eftir tafarlausu vopnahléi. En það sem skiptir mestu máli er að þessi ályktun sé ekki bara til heimabrúks og ekki bara til að friða samvisku okkar hér inni. Þess vegna verður ríkisstjórnin að tala skýrt og þess vegna verðum við að gera þá kröfu til hæstv. utanríkisráðherra að hann fylgi þessari ályktun eftir og beiti sér af fullum þunga gegn stríðsglæpum og fyrir friði.

Ég vil því spyrja hæstv. utanríkisráðherra: Hver eru næstu skref Íslands og samstarfsríkja okkar eftir að Bandaríkin beittu neitunarvaldi í öryggisráðinu á föstudag? Telur hæstv. utanríkisráðherra að viðskiptaþvinganir eða einhvers konar refsiaðgerðir geti komið til greina til að setja þrýsting á Ísraelsríki og hefur utanríkisráðherra átt samtöl um slíkar leiðir við samstarfsríki okkar?