154. löggjafarþing — 47. fundur,  11. des. 2023.

viðskiptaþvinganir og aðrar aðgerðir vegna ástandsins á Gaza.

[15:07]
Horfa

Kristrún Frostadóttir (Sf):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir svörin. Mig langar í lokin að beina tveimur öðrum spurningum til hæstv. ráðherra því að Samfylkingin hefur farið þess á leit við forseta Alþingis að hann óski eftir því að hæstv. utanríkisráðherra gefi þinginu munnlega skýrslu um ástandið á Gaza og viðbrögð íslenskra stjórnvalda núna fyrir þinghlé. Frá því að málið var síðast rætt með virkum hætti inni í þinginu er ljóst að ofbeldið hefur stigmagnast og við vitum að við munum ekki eiga efnisríka umræðu um málið hér á nokkrum mínútum. Alvarleiki átakanna er einfaldlega slíkur að opinber umræða þarf að fara fram um það hér inni og því spyr ég hvort hæstv. ráðherra muni samþykkja ósk okkar um þinglega umræðu um málið fyrir jólahlé. Í öðru lagi vil ég spyrja í ljósi fregna sem berast af því að krafan um tafarlaust og varanlegt vopnahlé verði til umræðu og atkvæðagreiðslu í allsherjarþinginu á morgun: Hefur Ísland tekið ákvörðun um afstöðu sína í þeirri atkvæðagreiðslu?