131. löggjafarþing — 48. fundur,  3. des. 2004.

Fjárlög 2005.

1. mál
[11:15]

Frsm. 1. minni hluta fjárln. (Einar Már Sigurðarson) (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Það er ástæða til þess að spyrja hv. þm. Magnús Stefánsson, formann fjárlaganefndar, hvort hann hafi ekki af því áhyggjur að í gær lagði Seðlabankinn fram endurskoðaða þjóðhagsáætlun. Þar kemur í ljós að nær allar meginforsendur fjárlagafrumvarpsins, og þar með væntanlegra fjárlaga, eru gjörbreyttar. Dæmi um það er að gert er ráð fyrir að samneyslan aukist um 50% meira en í forsendum fjárlagafrumvarpsins. Það er gert ráð fyrir að einkaneysla aukist einnig um nærri 50% og hagvöxtur verði töluvert meiri. Það er augljóst að þetta mun hafa veruleg áhrif á bæði tekjur og gjöld ríkissjóðs. Þess vegna er eðlilegt að spyrja hv. þingmann að því hvort hann telji ekki að það hafi verið vanhugsað af fjármálaráðuneytinu að endurskoða ekki þjóðhagsáætlun.

Í fjárlaganefnd kom fram hjá fulltrúum fjármálaráðuneytisins að þeir teldu ekki ástæðu til að endurskoða þessa áætlun fyrr en í byrjun næsta árs sem mundi þar af leiðandi ekki hafa nein áhrif á fjárlagaferlið í þinginu.

Nú hefur Seðlabankinn komist að því að flestar forsendur frumvarpsins séu gerbreyttar. Það er vandséð að frumvarpið sé í takt við raunveruleikann. Það bætist þá ofan á það sem við höfum bent á í umræðum varðandi hve fjarri það er raunveruleikanum miðað við stöðu stofnana og það hvernig mál hafa yfirleitt þróast. Hér er komið plagg sem enn frekar styður þá skoðun okkar að því miður sé hér til umræðu frumvarp sem sýnir meira sýndarveruleika en raunveruleikann sjálfan.