131. löggjafarþing — 48. fundur,  3. des. 2004.

Hrun veiðistofna skelfisks og innfjarðarækju.

[14:02]

Halldór Blöndal (S):

Frú forseti. Hér er hreyft alvarlegu máli. Við vitum að rækjustofninn er í lágmarki, hvort sem við lítum til úthafsrækju eða innfjarðarrækju og eins og sakir standa er, hygg ég, ekkert rækjuskip við veiðar. Ef til vill eru horfur á því að rækjuvinnsla í landi stöðvist, um skeið a.m.k., á einstökum stöðum. Þessi atvinnurekstur á í miklum erfiðleikum.

Ég vil á hinn bóginn vara mjög við því undir þessum kringumstæðum að menn reyni að slá keilur með því að gera lítið úr rannsóknum og athugunum hér við landið eins og hv. þingmenn gerðu, vöruðu við því að farið væri eftir ráðleggingum fiskifræðinga sérstaklega og höfðu við orð að þekking og rannsóknir þeirra byggðu á veikum grunni. Auðvitað höfðum við ekki á öðru að byggja en þeirri þekkingu sem er í Hafrannsóknastofnun og þeirri ráðgjöf sem þaðan kemur. Ég hygg að hv. þingmenn búi ekki yfir meiri þekkingu en þar er saman komin.

Ég vil einnig vara við því að menn dragi af þessu þær almennu ályktanir að ástæða sé til að hreyfa við kvótakerfinu en vil á hinn bóginn taka undir með hæstv. sjávarútvegsráðherra að nauðsynlegt er að bregðast við. Ég hef trú á því að hann muni gera það sem í hans valdi stendur til að beita hinum sérstöku úrræðum sem hann ræður yfir til að mæta áföllum eins og þessum. Frá því var gengið þegar kvótalögin voru sett að sjávarútvegsráðherra hefur ákveðin úrræði sem hér voru samþykkt og ég legg áherslu á að þeim sé skynsamlega beitt og að rannsóknir séu efldar á rækjustofninum.