135. löggjafarþing — 48. fundur,  16. jan. 2008.

tvöföldun Hvalfjarðarganga.

323. mál
[15:21]
Hlusta

Fyrirspyrjandi (Árni Þór Sigurðsson) (Vg):

Frú forseti. Þá er komið að þriðju fyrirspurn minni til hæstv. samgönguráðherra um samgöngumál hér á suðvesturhorninu og lýtur hún að tvöföldun Hvalfjarðarganga.

Það er kunnara en frá þurfi að segja að Hvalfjarðargöngin voru á sínum tíma mikið framfaraskref í samgöngum á þessu svæði og fyrir byggðaþróun á Vesturlandi, Snæfellsnesi og Norðvesturlandi og skiptu miklu máli. Það er líka kunnara en frá þurfi að segja að umferðin um Hvalfjarðargöngin hefur orðið miklu meiri en menn reiknuðu með þegar ráðist var í þetta mikilvæga verkefni. Þannig má áætla að umferðarmagnið um göngin hafi allt að því fjórfaldast frá því árið 1998 þegar göngin voru opnuð.

Talsvert hefur verið um það rætt að ráðast þurfi í tvöföldun Hvalfjarðarganga og reyndar hafa blandast í þá umræðu hugmyndir um að framlengja núverandi veggjald í Hvalfjarðargöngin og láta það greiða fyrir tvöföldun Hvalfjarðarganga. Það er ljóst að innheimta veggjaldanna eins og þau eru í dag hefur greitt niður þær skuldbindingar sem hvíla á verkefninu miklu hraðar en gert var ráð fyrir í upphafi.

Ég hef af þessu tilefni lagt fyrir hæstv. samgönguráðherra fyrirspurn um tvöföldun Hvalfjarðarganga:

1. Mun ráðherra beita sér fyrir því að tvöföldun Hvalfjarðarganga verði í næstu samgönguáætlun?

2. Hvenær mætti búast við að framkvæmdir gætu hafist við þá mikilvægu samgöngubót?

3. Hvaða stefnu hefur ráðherra um fjármögnun verkefnisins? Mun hann tryggja jafnt aðgengi allra vegfarenda um göngin eða hyggst hann leggja til upptöku veggjalda?

Vegna síðasta liðar, sem er samhljóða fyrirspurn um fyrri mál og hæstv. ráðherra kaus að snúa upp á mig og óska eftir að ég svaraði skoðunum mínum um það atriði, vil ég segja að nokkuð öðru máli getur gegnt um Hvalfjarðargöngin en önnur verkefni. Veggjald er nú þegar innheimt í Hvalfjarðargöngin, þannig að það er fróðlegt að heyra viðhorf hæstv. ráðherra til þessa sérstaklega og ekki síst í ljósi þeirrar umræðu sem fór fram fyrir síðustu þingkosningar og yfirlýsinga og loforða frá einstökum frambjóðendum í Norðvesturkjördæmi, m.a. frá hv. þm. Guðbjarti Hannessyni, um að afnema ætti veggjald í Hvalfjarðargöngum. Því er sérstaklega fróðlegt að heyra viðhorf hæstv. ráðherra til þessa verkefnis og ekki síður viðhorf hans sjálfs til fjármögnunar á svokölluðum Vaðlaheiðargöngum í huga.