136. löggjafarþing — 48. fundur,  10. des. 2008.

bygging tónlistarhúss og ráðstefnumiðstöðvar.

182. mál
[15:27]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Steinunn Valdís Óskarsdóttir) (Sf):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka hæstv. menntamálaráðherra fyrir skýr svör í þessum efnum. Ég er henni hjartanlega sammála um mikilvægi þessa verkefnis, það hefur blessunarlega verið eitt af þeim stórverkefnum sem við Íslendingar höfum tekið okkur fyrir hendur þar sem ríkt hefur þverpólitísk samstaða, sama hver hefur átt í hlut, milli ríkis og borgar og margir sem komið hafa að því. Ég tel mjög mikilvægt, og tek undir það með ráðherranum, að málið verði leyst. Ef hægt er að gera það á þann veg að húsið opni í ársbyrjun 2011 og menn verði að störfum þar fram að þeim tíma þá er það mjög mikilvægt fyrir byggingariðnaðinn.

Hæstv. ráðherra kom líka inn á nærliggjandi lóðir á svæðinu. Þær eru ákaflega dýrmætar og verðmætar þegar fram líða stundir, í þeim felast mikil verðmæti fyrir þann sem fær þær til uppbyggingar. Ef ég skil hæstv. ráðherra rétt þá standa einmitt yfir viðræður við Nýja Landsbankann um að hann haldi þessum lóðum eftir og geti þá innleyst þær þegar fram líða stundir. Þá skiptir mjög miklu máli, og ég treysti því að svo verði, að gott samstarf verði milli ríkisvaldsins og Reykjavíkurborgar um uppbygginguna á svæðinu. Sú skipulagstillaga sem lá fyrir á sínum tíma var mjög metnaðargjörn og framúrstefnuleg og gerði ráð fyrir mjög skemmtilegri miðborgarbyggð. Þó að þessi breyting verði vonast ég til að við sjáum áfram metnaðarfullar tillögur sem miða að því að styrkja miðborg Reykjavíkur og mannlíf og menningu Íslands alls.