138. löggjafarþing — 48. fundur,  16. des. 2009.

atvinnuleysistryggingar o.fl.

273. mál
[22:22]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S):

Virðulegi forseti. Ég vil í upphafi máls míns koma aðeins inn á meðferð þessa máls í þinginu. Það er alveg greinilegt að mikið óðagot hefur verið við vinnu frumvarpsins, bæði hvað varðar nefndavinnuna og eins hvernig staðið er að þessu í alla staði. Það að gefa umsagnaraðilum einungis þrjá daga til að gefa umsögn um frumvarpið segir allt sem segja þarf. Hér er verið að fara af stað og vinna málið á allt of stuttum tíma.

Hv. þingmenn koma síðan og halda því fram að hæstv. ríkisstjórn hafi einhverja festu í málunum. Það eru hin mestu öfugmæli. Við þurfum ekki annað en rifja upp það sem hefur gerst hér á undanförnum vikum, t.d. í því máli sem við ræddum hér á undan, breytingar á Fæðingarorlofssjóðnum. Menn hafa kastað því hér á milli sín margsinnis, hvernig það er gert, menn gefa misvísandi upplýsingar út og suður.

Svo að menn njóti sannmælis vil ég geta þess að það er líka gott ef fólk skiptir um skoðun ef það sér villur í því sem það er að gera, ég er ekki að gagnrýna það. En það hefur verið mjög mikið óðagot á mörgum málum hér og er hægt að nefna þau hér í löngu máli. Ég ætla svo sem ekki að eyða tíma mínum í það en vil þó sérstaklega nefna eitt mál sem við fjölluðum um hér í morgun. Við afgreiddum í gærkvöldi fjáraukalögin eftir 3. umr. og gerðum að lögum. Síðan kom það í ljós í morgun, á fundi fjárlaganefndar, að hugsanlega væru ágallar þar inni sem sneru að því að ekki væri heimild í 6. gr. fjáraukalaga til að framkvæma sölu á bönkunum. Það getur í framtíðinni skapað ríkissjóði, ef það reynist rétt sem Ríkisendurskoðun bendir á, stórar fjárhagsskuldbindingar þegar fram líða stundir.

Við þurfum því að breyta vinnubrögðunum. Ég hef ekki setið á þingi, virðulegi forseti, nema frá því í vor og þó að ástandið sé með óeðlilegum hætti, það skal viðurkennt, þá getum við samt gefið okkur tíma í að vinna þau mál vel sem þarf að gera. Við höfum eytt töluverðum tíma í alls konar gutl sem ekki þarf að eyða tíma í og það væri skynsamlegra ef við hefðum t.d. getað snúið okkur að því sem við hefðum getað gert betur.

Virðulegi forseti. Ég vil taka upp þráðinn frá því sem hv. þm. Pétur H. Blöndal var að tala um hér áðan. Þó að vissulega sé verið að herða á viðurlögum gagnvart fólki sem er að svíkja út atvinnuleysisbætur verð ég að harma það að dregið hafi verið úr því frá því sem lagt var af stað með í upphafi. Það er stóralvarlegt mál þegar fólk svíkur út atvinnuleysisbætur og það er verið að gera það í töluverðum mæli. Það er verið að svíkja út bætur. Það er mjög slæmt. Mér fannst samlíkingin hjá hv. þm. Pétri H. Blöndal góð en hann líkti því við það þegar menn svíkja út skatta. Mjög hörð viðurlög eru við því og það á líka að vera þegar fólk er að svíkja fé út úr ríkissjóði, hvort sem það er í formi atvinnuleysisbóta eða einhverju öðru. Þess vegna þarf að herða þessar reglur til muna. Mig langar að rifja það hér upp, virðulegi forseti, að á næsta ári er gert ráð fyrir því að ríkissjóður greiði 30 milljarða í atvinnuleysisbætur. Reyndar kemur stærsti hlutinn af því í gegnum tryggingagjaldið en útgjöldin á næsta ári eru 30 milljarðar, sem verða að sjálfsögðu teknir af atvinnulífinu, sem er skattur á atvinnu, þannig að það segir sig sjálft að þarna verður að bregðast við.

Eins og það er sárt, virðulegi forseti, að horfa upp á fólk sem missir vinnuna og hefur því ekki tækifæri til að sjá fyrir fjölskyldu sinni, sjá henni farborða, þá er mjög dapurlegt að horfa upp á að verið sé að svíkja út bætur. Ég vil líka árétta, og við þurfum ekki annað en fylgjast með fréttum og vitum það öll sem sitjum hér í þessum sal, að á sama tíma og við erum með þetta hörmulega atvinnuleysi, sem reiknað er með að verði 9,6% á næsta ári, erum við samt sem áður að flytja inn fullt af erlendu vinnuafli til að vinna vinnuna sem þarf að vinna í frumgreinunum, í sjávarútvegi, í landbúnaði, í þjónustu á öldrunarstofnunum og margt fleira. Það er dálítið sérkennilegt að upplifa það og ég hef miklar áhyggjur af því vegna þess að það er mjög slæmt fyrir fólk að venjast á það að vera á atvinnuleysisbótum.

Margar rannsóknir segja að fólk sem lendir í því — og við þekkjum það frá öðrum löndum — festist jafnvel kynslóð eftir kynslóð í þessari gildru. Það er eins og fólk hafi sig ekki út á atvinnumarkaðinn. Það hafa líka komið fyrir fjárlaganefnd í sumar margir fulltrúar sem hafa sagt að fullt sé af fólki á atvinnuleysisskrá í byggðarlaginu en samt sem áður gangi mjög erfiðlega að fá fólk til þess að vinna í upplýsingamiðstöðvum og þar fram eftir götunum, vinna í söfnum og svona, sem er mjög bagalegt.

Það kemur líka fram í umsögn frá Sambandi íslenskra sveitarfélaga að þeir reikni með að það séu 2,2 milljarðar, en hv. þm. Sigríður Ingibjörg Ingadóttir sagði hér áðan að eftir þær breytingar sem orðið hafi á frumvarpinu, sé talið að það gæti numið allt að 370 milljónum, þ.e. kostnaðaraukinn fyrir sveitarfélögin. Það er mjög mikilvægt að kostnaðarreikna frumvörp af þessu tagi því að sveitarfélögin eru að sjálfsögðu líka opinber þjónustuaðili og veita mikla grunnþjónustu. Það er gríðarlega slæmt að þurfa að ganga á rétt sveitarfélaganna og taka tekjur frá þeim og færa inn í ríkissjóð án þess að það sé bætt. Það er því mjög mikilvægt að breyta þessum vinnubrögðum og ég hvet hv. félagsmálanefnd til þess.

Hv. þingmaður sagði líka hér áðan, þegar ég gerði athugasemd við þetta í andsvari, að þetta hefði ekki verið til eftirbreytni það sem verið hefur undanfarin ár. Ég tek heils hugar undir það með hv. þm. Sigríði Ingibjörgu Ingadóttur. Ég hef starfað í sveitarstjórnarmálum mjög lengi, eða töluvert lengi — hef verið í sveitarstjórnarmálum í 15 ár og verið í forsvari fyrir sveitarfélag — og menn geta ekki skýlt sér á bak við það í dag að fyrrverandi stjórnvöld hafi ekki staðið sig vel, það er ekki til eftirbreytni fyrir þá sem taka við. Ég hvet hv. félagsmálanefnd til að kostnaðarreikna frumvörp þannig að það liggi klárlega fyrir hvaða áhrif það hefur á sveitarfélögin.

Virðulegi forseti. Breyting á tryggingagjaldinu 1. júlí sl., þegar það var hækkað um 1,66%, þýðir á þessu ári 700 millj. kr. útgjaldaaukningu fyrir sveitarfélögin, það þýðir 1.300 milljónir á næsta ári í útgjaldaaukningu fyrir sveitarfélögin, sem eru 2 milljarðar. Það er verið að taka 2 milljarða frá sveitarfélögunum til þess að rétta af ríkissjóð. Það var sagt og kynnt í fjárlaganefnd, þegar þetta var lagt fram, að þessi tekjumissir sveitarfélaganna yfir til ríkisins yrði leiðréttur í samningum á milli ríkis og sveitarfélaga, en það hefur svo oft áður gerst að ekki er staðið við það. Það er ekki leiðrétt. Það er alltaf farið í einhverjar hókus pókus æfingar, reynt að gera þetta í gegnum jöfnunarsjóðinn og þetta skilar sér aldrei. Þetta á bara að vera klárt og kvitt í mínum huga. Ef þetta þýðir ákveðna útgjaldaaukningu fyrir sveitarfélögin til ríkisins, þ.e. annars vegar beinar tekjur til ríkisins eða kostnaðarfærslu á milli ríkis og sveitarfélaga, á bara að laga það með mjög einföldum hætti. Ef upphæðin er t.d. 100 milljónir á það bara að vera ein greiðsla og ekkert vera flókið í kringum það og ekkert að blanda Jöfnunarsjóði sveitarfélaga til þess að enginn skilji nokkurn hlut í neinu. Þetta á ekki að vera flókið.

Grunnskólarnir voru færðir frá ríki til sveitarfélaga og frá því það var gert hafa sveitarfélögin kvartað yfir því og sýnt fram á það að ekki komu nógu sterkir tekjustofnar með þeim skuldbindingum sem sveitarfélögin taka á sig. Og til að nefna eitt til viðbótar: Þegar menn breyttu hlutafélagalögunum og leyfðu einstaklingum að færa atvinnurekstur sinn yfir í einkahlutafélög hröpuðu tekjustofnar margra sveitarfélaga, þar á meðal þess sveitarfélags sem ég bý í. Það var skýr lína þar á milli og við töpuðum stórum tekjum og það er mjög bagalegt. Það færðist þá frá ríkinu yfir til sveitarfélaga og síðan farið í einhverjar æfingar með því að jafna það yfir öll sveitarfélög á landinu þannig að þetta er hlutur sem við verðum að breyta. Það á að láta kostnaðarreikna frumvörpin til þess að þetta gangi eftir, það er mjög mikilvægt. Ég beini því í mikilli vinsemd til hv. félagsmálanefndar að hún breyti þessum vinnubrögðum þannig að það liggi alveg klárt fyrir hvað verið er að gera.

Það er líka mjög alvarlegt það sem kemur fram í umsögn frá sveitarfélögunum um það að sveitarfélögin standa mjög illa og ég hef verulegar áhyggjur af því. Ég hef verulegar áhyggjur af mörgum sveitarfélögum í landinu. Eftir að hafa hlustað á fulltrúa þeirra koma fyrir fjárlaganefnd og segja okkur hvernig ástandið er þá hef ég verulegar áhyggjur. Verulegar áhyggjur, ég leyni því ekki neitt. Það er ekki neinn pólitískur spuni í mér. Það er alveg sama hver væri að stýra landinu, ég mundi eftir sem áður hafa þessar áhyggjur. Það eru líka margir aðrir samningar sem sveitarfélögin hafa verið að gera við ríkisvaldið sem ekki skila sér til baka.

Það kemur reyndar líka fram í umræddri umsögn að ef gengið er mjög nærri tekjustofnum sveitarfélaganna og fært yfir til ríkisins muni það verða með þeim hætti. Við vitum öll að útgjaldaskuldbindingar sveitarfélaganna eru svipaðar og gerist með ríkið, þetta eru að mestu leyti laun sem erfitt er að fara í nema ná samkomulagi við viðkomandi stéttarfélög sem er erfitt. Þá verður að draga mjög úr grunnþjónustunni sem getur orðið grafalvarlegt mál, hvort sem það er félagsþjónustan eða skólarnir. Skólarnir eru jú það dýrasta og kostnaðarsamasta sem sveitarfélögin reka.

Virðulegi forseti. Ég held ég hafi komið öllum skoðunum mínum á framfæri. Ég vil að endingu hvetja hv. félagsmálanefnd til að láta kostnaðarreikna frumvörpin. Við þurfum ekki að vera í þessum deilum, þetta á að vera klárt og klippt þannig að það sé ekki með þeim hætti. Hv. þm. Sigríður Ingibjörg Ingadóttir sagði að hugsanlega stæði til að herða þessar reglur, ef fólk er að taka sér bætur sem það á ekki rétt á, á vorþinginu og ég hvet hv. félagsmálanefnd til þess og heiti henni stuðningi. Við getum ekki greitt fólki atvinnuleysisbætur heima á sama tíma og verið er að flytja fólk inn til að vinna þessi störf. Við bregðumst síðan við með því að leggja auknar álögur á þá sem eru að vinna og standa skil á sköttum sínum, á þá sem eru heiðarlegir. Þessu verðum við að breyta.