141. löggjafarþing — 48. fundur,  6. des. 2012.

ráðstafanir í ríkisfjármálum.

468. mál
[16:25]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Fyrst langar mig aðeins að koma inn á séreignarsparnaðinn. Það hljómaði einhvern veginn þannig hjá hv. þingmanni áðan að menn tækju hann út til að leggja hann aftur inn en eitthvað hljóta menn nú að vera að gera annað þegar þeir taka út sparnaðinn. Þeir nota hann væntanlega í eitthvað og það eru ekki endilega þeir sömu sem taka út sparnaðinn og leggja hann aftur inn. Það er rétt að sparnaður hefur aukist, sem betur fer, kannski vegna þess að þeir sem eiga afgang og eiga aur eru í vandræðum með að koma honum fyrir einhvers staðar annars staðar.

Það er nú ekki það sem ég ætlaði að spyrja um. Ég ætlaði að koma inn á það sem hv. þingmaður nefndi að komið hafi fram að tóbaksgjaldið eitt og sér mundi hækka verðtryggð lán heimilanna um 3 milljarða. Nú held ég að ég geti fullyrt að meginþorri þeirra sem eru með verðtryggð lán sé fólk með börn, barnafjölskyldur sem hafa verið að koma sér upp húsnæði. Því er alveg hægt að velta því fyrir sér hvort þeir 2,5 milljarðar sem eiga að fara aukalega í barnabæturnar étist ekki hreinlega upp bara með tóbaksgjaldinu. Við vitum að það eru fleiri þættir í þessu frumvarpi sem munu leiða til hækkunar verðtryggingarinnar, hækkunar verðbólgu og auka þar með á skuldir heimilanna. Það er jákvætt, herra forseti, að setja eigi meiri fjármuni í barnabætur en það er neikvætt að þær virðast étast upp hinum megin frá. Kannski er það einmitt þess vegna sem ríkisstjórnin ákvað að auka framlög til barnabóta, til að lina þjáningarnar sem eru fyrirsjáanlegar vegna hækkunar á lánum heimilanna. Hitt er að sama má í rauninni segja um vaxtabæturnar, á endanum verður allt étið upp af hækkun á lánum sem eru til komin vegna aðgerða ríkisstjórnarinnar.