143. löggjafarþing — 48. fundur,  21. des. 2013.

jólakveðjur.

[18:13]
Horfa

Forseti (Einar K. Guðfinnsson):

Háttvirtir alþingismenn. Nú er komið að lokum þessa haustþings. Undanfarnir dagar hafa verið kunnuglegir og einkennst af mikilli vinnu og löngum umræðum. Það er að vonum. Við stóðum frammi fyrir því óhjákvæmilega verkefni að ljúka við fjárlög og tengd mál og önnur þau mál sem nauðsynlegt var af öðrum ástæðum að ljúka áður en árið væri liðið. Þótt skoðanir væru skiptar um mörg þessara mála tókst góð sátt um lúkningu þeirra að lokum og fyrir það ber að þakka. Stórir atburðir tengdir kjarasamningum töfðu áætluð þingstörf, en í ljósi þess er það sannarlega ánægjulegt að okkur tókst þó að ljúka þingstörfum tveimur dögum síðar en starfsáætlun kvað á um. Það hefði ekki auðnast nema vegna þess að þingmenn allir lögðu sig fram um að svo mætti takast.

Fjárlagaumræður eru jafnan fyrirferðarmestar um þetta leyti og svo er einnig núna. Svo lengi sem elstu menn muna og tiltæk gögn ná yfir hafa umræður við 2. umr. fjárlaga hafist og þeim lokið á einum og sama deginum þótt þær hafi oftar en ekki staðið inn í nóttina og atkvæðagreiðslan jafnan farið fram daginn eftir. Umræðurnar hafa oft verið býsna langar, enda eðlilegt þegar um er að ræða umfjöllun um veigamestu þætti frumvarpsins og helstu álitamálin. Dæmi má taka frá fjárlagaumræðunni á 139. löggjafarþingi haustið 2010. Hún byrjaði þá rúmlega 11 að morgni. Síðasta ræðan hófst kl. 03.11 um nóttina og lauk kl. 03.45. Þessa ræðu flutti þáverandi hv. 5. þingmaður Norðvest. Einar K. Guðfinnsson. [Hlátur í þingsal.]

Í fyrra stóð á hinn bóginn 2. umr. fjárlaga alls í 51 klukkustund og fór fram á fimm dögum. Atkvæðagreiðslan tók síðan fjórar og hálfa klukkustund. Í ár hófst 2. umr. fjárlaga 13. desember, fór fram á fjórum dögum og stóð alls í um 29 klukkustundir. Þessi þróun er að mínu mati nokkurt umhugsunarefni sem okkur þingmönnum ber að hyggja að. Atkvæðagreiðslan um frumvarpið eftir 2. umr. núna tók tæpar þrjár klukkustundir, hún gekk mjög greiðlega fyrir sig og fyrir það ber að þakka.

Í dag eru vetrarsólhvörf og nú tekur daginn að lengja. Við göngum því mót hækkandi sól. Það er ánægjulegt að einmitt á þessum degi skuli hilla undir nýja kjarasamninga á almennum markaði með þríhliða aðkomu launþega, atvinnulífs og ríkisvalds, líkt og einatt hefur gerst við snúnar og erfiðar aðstæður eins og núna. Í því sambandi er sérstakt fagnaðarefni að við lausn þessa erfiða máls sneri þingheimur bökum saman við afgreiðslu nauðsynlegra þingmála í dag og skirrðist ekki við að fresta þinglokum til að stuðla að farsælli niðurstöðu.

Jólahlé þingsins er að þessu sinni styttra en oft hefur verið. Aðstæður eru að því leyti óvanalegar að þinghald til vors verður fremur stutt vegna sveitarstjórnarkosninga í lok maí. Skipulag þingsins tekur mið af þessu og er því samþjappaðra en oft áður og fjöldi þingfundadaga og nefndadaga fyrir vikið álíkur því sem við höfum að jafnaði þekkt.

Við skipulagningu þingstarfa hér hef ég notið ákaflega góðs samstarfs við forsætisnefnd, formenn þingflokka og starfsfólk Alþingis. Ég vil færa öllu þessu fólki alúðarþakkir fyrir samstarfið og óska öllum gleðilegrar og friðsællar jólahátíðar. Þeim sem eiga um langan veg heim að fara óska ég góðrar heimferðar og heimkomu og bið þess að við megum öll hittast heil á nýju ári.

Landsmönnum öllum sendi ég mínar bestu nýárs- og jólakveðjur.