146. löggjafarþing — 48. fundur,  27. mars 2017.

viðvera umhverfisráðherra í óundirbúnum fyrirspurnum.

[15:06]
Horfa

Kolbeinn Óttarsson Proppé (Vg):

Virðulegur forseti. Það ætti kannski ekki að koma neinum á óvart að ég ætli að höggva í sama knérunn og þingmenn sem hafa komið hér á undan mér. Við höfum upplifað það í hv. umhverfis- og samgöngunefnd að nóg er af málunum í þessum málaflokki til að taka fyrir, mál sem þörf væri á að eiga orðastað um við ráðherra hér í þingsal, að ekki sé talað um þau mál sem nú hefur verið komið inn á. Það er gríðarlega bagalegt að sú aðstaða komi upp að ráðherra sjái sér ekki fært að eiga orðastað við okkur. Sjálfum finnst mér eðlilegt að ef svona gerist, sem ég vona að verði sem sjaldnast, sé fyrir því mjög rík ástæða sem skýrt og skilmerkilega sé greint frá, að ráðherra geti ekki bara verið í sjálfsvald sett að mæta ekki án þess að ræða það neitt frekar við þingið hverju sæti.