146. löggjafarþing — 48. fundur,  27. mars 2017.

heilbrigðisáætlun.

230. mál
[17:44]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Óttarr Proppé) (Bf):

Frú forseti. Já, ég vil bara taka undir með hv. þingmanni um mikilvægi þessarar vinnu. Það er að mörgu að gæta. Ég tel að það gæti verið fyrirtakshugsun að vísa tillögu hv. þingmanns og því sem er á bak við hana til ráðherra inn í vinnuna, vegna þess að ég held að við séum í raun og veru svona strangt til tekið að tala um sama hlutinn.

Ég legg sömuleiðis áherslu á — ég var rétt að byrja þegar ég var búinn með tímann áðan — að tala um samráðið við fagfólkið. Ég legg mikla áherslu á það. Ég held að það sé ekki síður mikilvægt að við höfum gott samráð við þá sem njóta þjónustunnar, þ.e. sjúklinga, að þeir hafi líka tækifæri til að hafa áhrif á stefnuna því að veitendur þjónustunnar, þ.e. veitendasjónarhornið, og þeir sem þiggja þjónustuna hafa ekki alltaf sama sjónarhorn þegar kemur að veitendum annars vegar og neytendum hins vegar og geta haft ólíka sýn á hvað er mikilvægast. Ég vil leggja það aðeins inn í þessa hugsun.

Ég vil taka undir með hv. þm. Kolbeini Óttarssyni Proppé að mikilvægt sé að vinna að málum í breiðri sátt þegar það er hægt en samt í breiðri samvinnu, jafnvel þó það sé ekki sátt, og þverpólitískt. Ég hef haft þetta á orði á fundum mínum með hv. velferðarnefnd og ítreka það héðan að mér finnst mikilvægt að það verði þverpólitísk vinna og aðkoma einhvern veginn. Ég held að það sé meiri sátt um að vinna að þessum málum heldur en svo að við þurfum að gefa okkur allan tímann í heiminum til þess að finna upp hjólið hver í sínu horni. (Forseti hringir.) Vinnum endilega saman. Reynum að gera það sem hraðast. Ég tek fagnandi þeirri áskorun um að ég komi hérna fyrir þinglok í sumar og láti vita hvernig gengur.