146. löggjafarþing — 48. fundur,  27. mars 2017.

lyfjaskráning.

231. mál
[17:58]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Óttarr Proppé) (Bf):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni sömuleiðis fyrir fyrirspurnina, góða fyrirspurn sem skiptir máli. Ég tek undir með hv. þingmanni að við þurfum að vanda okkur þegar kemur að hugbúnaðargerð og stöðlum. Það segir sig sjálft að öll kerfin okkar hér á Íslandi eru lítil í alþjóðlegum samanburði og þar með talið heilbrigðiskerfið. Við byggjum vissulega gjarnan á aðkeyptum og aðkomnum stöðlum og reynslu. Það er mikilvægt fyrir okkur vegna þess að oft er umfangið hjá okkur það lítið að það getur tekið tíma fyrir villur að koma fram. Ég tek undir með honum og finnst mikilvægt að við notum líka tækifærið. Ég var mjög ánægður þegar ég var að rannsaka þetta að sjá hve mikið er lagt upp úr því hjá embætti landlæknis og hjá þeim sem eru í heilbrigðiskerfinu að fara yfir, vakta og þróa sín kerfi. Það skiptir miklu máli, ég tek undir það.

Ég þekki það sjálfur í miklu einfaldari kerfum að skráningar, þegar kemur að vörunúmerum og vöruheitum, þurfa að vera mjög nákvæmar. Góðu fréttirnar fyrir okkur Íslendinga eru þær, kannski aftur vegna smæðarinnar, að við erum að mörgu leyti komin lengra en flestar nágrannaþjóðirnar í rafrænum lyfjagáttum, þ.e. við erum komin með mjög hátt hlutfall lyfjaávísana í rafrænt form. Það er mikilvægt bæði upp á utanumhald lyfja og lyfjamála almennt, en ekki síður þegar kemur að læknisþjónustu og þjónustu við sjúklinginn, til þess að þar sé klínískum leiðbeiningum fylgt og upplýsingar séu alltaf fyrir hendi þegar verið er að ávísa lyfjum.

Ég þakka aftur fyrir góða fyrirspurn og góðar umræður.