146. löggjafarþing — 48. fundur,  27. mars 2017.

rannsókn á fangaflugi bandarískra yfirvalda um Ísland.

124. mál
[18:24]
Horfa

utanríkisráðherra (Guðlaugur Þór Þórðarson) (S):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir fyrirspurnina. Ég fór eins vel og ég gat yfir svörin við þeirri spurningu sem hv. þingmaður bar fram. Mér fannst seinni spurningarnar vera endurtekning á þeim spurningum. Ég sé enga ástæðu til að fara að lesa aftur þau svör sem ég var með í fyrri ræðunni. Eðli málsins samkvæmt var ég ekki á svæðinu þegar þessar spurningar voru bornar fram en ég sé enga ástæðu til þess að ætla annað en að menn hafi unnið þetta mál eins vel og mögulegt er. Tveir fyrirrennarar mínir hafi komið að málinu, í það minnsta, í rauninni fleiri ef allt er tekið. Afstaða íslenskra stjórnvalda er alveg skýr. Hún hefur svo sannarlega ekkert breyst. Hins vegar er alveg ljóst að íslensk stjórnvöld hafa engin tök á því að fara að yfirheyra aðila sem eru ekki undir lögsögu okkar, eins og allir vita. Ég held að það sé ekki hægt að halda því fram að þeir aðilar sem á undan mér komu hafi ekki gengið í málið af fullum heilindum. Ég held að ekki sé með nokkru móti hægt að halda því fram að afstaða íslenskra stjórnvalda hafi ekki verið mjög skýr í þessu máli, bæði þá og nú.