146. löggjafarþing — 48. fundur,  27. mars 2017.

gerð samnings um vegabréfsáritanafrelsi við Kósóvó.

168. mál
[18:25]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Smári McCarthy) (P):

Frú forseti. Schengen-samstarfið er eitt almikilvægasta alþjóðasamstarf sem Íslendingar eru aðilar að. Það tryggir Íslendingum mjög greiðan aðgang að Evrópu og ýmsum öðrum löndum án vegabréfsáritana og fyrirhafnar. Seint verður metið til fjár hversu mikil áhrif það hefur að hafa aðgang að öðrum löndum. Flest lönd Evrópu eru nú komin með samninga við Schengen-samstarfið um að íbúar þeirra fái sömuleiðis aðgang að Íslandi og öðrum löndum Schengen-svæðisins án vegabréfsáritana. Nú á næstunni tekur slíkt samkomulag gildi við Úkraínu og á morgun tekur slíkur samningur gildi við Georgíu. Tyrkland hefur einnig verið í viðræðum um það en var sett á ís eftir að Erdogan fór að vera með heldur mikla einræðistilburði. En Kósóvó verður þá eina landið eftir sem er í Evrópu í einhverjum skilningi, það er kannski teygjanlegt hugtak, en eina Evrópulandið að mínu viti sem ekki hefur slíkan samning.

Það hafa ýmsar ástæður verið gefnar fyrir því hvers vegna enginn slíkur samningur hefur verið gerður. En fáar skýringar halda í raun vatni. Til að mynda hefur verið talað um landamæradeilur Kósóvós við Svartfjallaland, en ekki er hægt að segja að ekki séu neinar landamæradeilur í Úkraínu um þessar mundir. Á sama hátt og Schengen skiptir rosalega miklu máli fyrir okkur skiptir auðvitað verulegu máli fyrir íbúa Kósóvós að geta heimsótt nágrannalönd án þess að þurfa að fara í gegnum margra mánaða langt ferli. Uppbygging landsins og framtíð þess byggir mikið á því að mynda viðskipta- og menningarsamband við aðrar þjóðir.

Ég spyr því hæstv. utanríkisráðherra: Hvers vegna hefur ekki verið gerður samningur um vegabréfsáritanafrelsi við Kósóvó líkt og flest önnur ríki Evrópu? Hyggst ráðherra beita sér fyrir því í samskiptum sínum við Evrópusambandið að gengið verði frá slíkum samningi við Kósóvó?

Auðvitað er það ekki endilega hlutverk okkar hér að verja hagsmuni íbúa Kósóvós. Við höfum í nógu að snúast við að verja hagsmuni Íslendinga. En ég lít samt svo á að það þjóni hagsmunum Íslands að það sé gott og greitt aðgengi að landinu fyrir fólk frá útlöndum þannig að við getum myndað menningar- og viðskiptasambönd, svo ekki sé talað um þau rosalegu jákvæðu áhrif sem þetta hefur á frið í heiminum, að fólk geti hist og talað saman.