146. löggjafarþing — 48. fundur,  27. mars 2017.

gerð samnings um vegabréfsáritanafrelsi við Kósóvó.

168. mál
[18:34]
Horfa

utanríkisráðherra (Guðlaugur Þór Þórðarson) (S):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Smára McCarthy fyrir fyrirspurnina og viðbótina við hana. Eins og ég fór yfir í máli mínu áðan þá snýr þetta að stjórnvöldum í Kósóvó núna. Ég þekki bara ekki hvers vegna þau eru svo lengi að klára það mál. Ég skal bara vera hreinskilinn með það að ég þekki ekki aðstæður í Kósóvó.

Hv. þingmaður nefndi það og veit að það er því miður nokkuð um skipulagða glæpastarfsemi í Austur-Evrópu og kannski meira en annars staðar á sumum stöðum þar. Það er þess vegna afskaplega mikilvægt að það ríki traust á því fyrirkomulagi sem er til staðar til þess að viðhalda því grundvallarfyrirkomulagi að menn geti ferðast á milli landa. Þegar mörg lönd eru saman í slíku samstarfi er enginn sterkari en veikasti hlekkurinn. Við þekkjum að margt gott hefur gerst í þessu sambandi og ég held að ég og hv. þingmaður séum sammála um að ferðafrelsi er gríðarlega mikilvægt og mikil gæði fólgin í því, en þá er náttúrlega hin hliðin á þeim peningi sú að menn þurfa að ganga þannig fram að verið sé að hjálpa almennum borgurum til að ferðast en ekki skipulögðum glæpasamtökum til að athafna sig.

Þess vegna er ég alveg sammála hv. þm. Smára McCarthy þegar hann segir að það sé mjög mikilvægt að við hugum að þeim þætti. Það væri slæmt ef við þyrftum að sjá einhverja takmörkun á ferðafrelsi almennra borgara vegna þess að fyrirkomulagið sé ekki nógu heilsteypt og sterkt. Í slíku samstarfi, eins og svo mörgu öðru, er ekkert sterkara en veikasti hlekkurinn.