146. löggjafarþing — 48. fundur,  27. mars 2017.

almenningssamgöngur.

142. mál
[18:37]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Silja Dögg Gunnarsdóttir) (F):

Hæstv. forseti. Undanfarið hefur framkvæmd landshlutasamtaka sveitarfélaga í almenningssamgöngum verið til umræðu og hallar þar mjög á samtökin. Í nýlegri fundargerð Samtaka sveitarfélaga á Suðurlandi segir m.a. að nauðsyn sé að að tryggja landshlutasamtökum einkaleyfi almenningssamgangna og að einkaréttur landshlutasamtakanna til að starfrækja almenningssamgöngur á tilteknum leiðum og svæðum verði virtur og að þeim rétti sé veitt ríkari vernd í lögum. Samtökin fara einnig fram á að gerður verði skýrari greinarmunur á almenningssamgöngum og farþegaflutningum í atvinnuskyni. Hið sama er uppi á teningnum á Suðurnesjum. Þar hafa hagsmunaaðilar í hópferðaþjónustu barist gegn því að leiðin Flugstöð–Reykjavík verði skilgreind sem almenningssamgöngur og vilja óhefta samkeppni. Samkeppniseftirlitið hefur gefið út álit sem styður sjónarmið hópferðafyrirtækjanna. Nú hefur innanríkisráðuneytið beitt sér gegn samningi milli Sambands sveitarfélaga á Suðurnesjum og lægstbjóðanda. Vegagerðin afturkallaði síðan ólöglegt sérleyfi SSS á leiðinni, svo nú eru almenningssamgöngur á Suðurnesjum sem og á landinu öllu í uppnámi, en niðurstaða dómstóla liggur enn ekki fyrir.

Í áliti Samkeppniseftirlitsins er gengið út frá því að umrædd leið sé ekki almenningssamgöngur heldur ferðaþjónusta. Þar segir einnig að óheimilt sé samkvæmt Evrópurétti að nýta leiðir er skila hagnaði til að bæta þjónustu á öðrum leiðum. Jafnframt er fullyrt að SSS muni nýta tekjur af þessari leið í almennan rekstur sveitarfélaga. Ekkert af þessu á við rök að styðjast.

Í Evrópurétti er heimilt að ríki veiti sérleyfi á almenningssamgöngur og að ágóða af arðbærum leiðum megi nýta til að bæta þjónustu á óarðbærum leiðum svo fremi sem kerfið í heild skili ekki hagnaði. Alls staðar annars staðar á Norðurlöndunum eru akstursleiðir frá alþjóðaflugvöllum taldar hluti af almenningssamgöngum enda hefur almenningur hag af hagkvæmum og greiðum samgöngum um alþjóðaflugvöll.

Almenningssamgöngur eru á ábyrgð ríkisins og fer Vegagerðin með það verkefni. Árið 2011 var lögum um fólks- og farflutninga á landi breytt svo Vegagerðinni væri heimilt að fela Samtökum íslenskra sveitarfélaga að sjá um almenningssamgöngur á sínu starfssvæði. Rökin voru að sveitarfélög þekktu best þörfina innan svæðismarka sinna og gætu best nýtt féð almenningi til hagsbóta. Samtök sveitarfélaga víðs vegar um landið hafa farið í útboð og í mörgum tilvikum hafið samstarf við Strætó bs. Almenn ánægja er með þetta fyrirkomulag hjá almenningi. Kostir þess að auka notkun almenningssamgangna eru m.a. minna álag á samgöngukerfið og minni útblástur, sem sagt jákvæð umhverfis- og samfélagsleg áhrif.

Sú sem hér stendur vill að almenningssamgöngur verði raunhæfur valkostur. Það hefur marga kosti í för með sér, eins og áður er nefnt. Ég vil ekki að kerfið okkar sé þannig að einkaaðilar fái gróðann af leiðum sem standa undir sér en almenningur greiði hallann af óhagstæðum leiðum.

Síðan þessi fyrirspurn var lögð fram er liðinn dágóður tími og hefur ráðherra í millitíðinni lagt fram frumvarp um almenningssamgöngur sem er nú hjá hv. umhverfis- og samgöngunefnd. Mig langar samt til þess að heyra hvaða sýn ráðherra hefur á nokkur atriði:

Hefur ráðherra í hyggju að veita landshlutasamtökum einkaleyfi almenningssamgangna? (Forseti hringir.)

Er ráðherra sammála því að tryggja þurfi að arðbærar leiðir séu hluti af leiðakerfum almenningssamgangna á vegum sveitarfélaga?

Hyggst ráðherra beita sér fyrir að gerður verði skýrari greinarmunur á almenningssamgöngum og farþegaflutningum í atvinnuskyni?