146. löggjafarþing — 48. fundur,  27. mars 2017.

almenningssamgöngur.

142. mál
[18:49]
Horfa

samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra (Jón Gunnarsson) (S):

Virðulegi forseti. Aðeins varðandi síðustu spurningu hv. þingmanns þá gengur málið út á að hægt sé að veita einkaleyfi til að skipuleggja almenningssamgöngur. Það á auðvitað við eitthvert heildstætt kerfi og þar með þær leiðir sem eru fjölfarnari, ef við getum orðað það þannig. Það er alveg ljóst að sumar leiðir munu bera sig og viðurlög eiga að vera við því ef einkaaðilar taka upp á þeirri iðju að pikka upp farþega á þessum leiðum og rýra þar með gildi heildarkerfisins. Við teljum okkur vera að komast fyrir það.

Ég fagna þeirri umræðu sem er um almenningssamgöngur. Ég tek þeirri hugmynd vel ef talin er ástæða til að skoða sérstaka löggjöf um almenningssamgöngur. Það er rétt hjá hv. þm. Bryndísi Haraldsdóttur að breytingar eru í farvatninu sem eru kannski stærri, ef þær ganga eftir, en við höfum áður séð, sem tengjast þessari svokölluðu borgarlínu. Þó að það sé á byrjunarstigi þarf að huga að því.

Ef einhverjir hnökrar eru á þessu máli, eitthvað sem betur má fara, og koma fram í meðförum nefndarinnar er okkur í lófa lagið að reyna að bæta málin. Til þess er hin þinglega meðferð. Ég fagna því og óska þá eftir samstarfi við hv. þingmenn í nefndinni um þær breytingar. Það er mikilvægt að heildarsýn sé til og við förum ekki gegn þeirri alþjóðalöggjöf sem við erum að hluta til bundin af í þessum efnum.