146. löggjafarþing — 48. fundur,  27. mars 2017.

vegarlagning um Teigsskóg.

182. mál
[19:07]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Elsa Lára Arnardóttir) (F):

Hæstv. forseti. Það hefur nú ýmislegt komið fram sem varðar þetta mál frá því að fyrirspurn um vegarlagningu um Teigsskóg var lögð fram. Frá því að fyrirspurnin var lögð fram hefur m.a. komið í ljós að það fjármagn sem eyrnamerkt hefur verið til margra ára til vegaframkvæmda í Gufudalssveit er ekki lengur til staðar þrátt fyrir að sú framkvæmd hafi verið inni í þeirri samgönguáætlun sem kom frá fyrrverandi hæstv. innanríkisráðherra. Og einhverra hluta vegna stóð ég, sem þingmaður, í þeirri trú að framgangur þeirra verkefna sem lagt var upp með af hálfu hæstv. ráðherra á þeim tíma væri tryggður. Við þekkjum síðan öll þá umræðu að samgönguáætlun eins og hún kom frá hv. Alþingi hafi ekki verið fjármögnuð nema að hluta, en við hljótum öll að muna eftir samþykkt fjárlaga þar sem fram kom að það væri verkefni nýrrar ríkisstjórnar að bæta við þá málaflokka sem forgangsraða ætti til.

Nú hefur hæstv. samgönguráðherra fundið 1.200 milljónir til að bregðast við því sem upp á vantaði og þar eru 200 milljónir ætlaðar í verkefnið um Teigsskóg. Ég hef verið að þrýsta á framgang þessa máls, þ.e. vegalagningu um Teigsskóg, verkefni sem ekki hefur gengið neitt í allt of mörg ár. Íbúar á sunnanverðum Vestfjörðum eru vægast sagt orðnir langþreyttir á stöðunni. Þess vegna spurði ég fyrrverandi hæstv. innanríkisráðherra hvort hægt væri að áfangaskipta verkefninu. Í umræðu við hæstv. þáverandi innanríkisráðherra kom fram að hægt væri að skoða þann möguleika þegar ný matsskýrsla kæmi fram. Þá væri jafnvel hægt að áfangaskipta verkefninu og byrja á þeim hluta leiðarinnar sem sátt ríkir um, þ.e. að gefa von um að eitthvað fari að gerast í þessum málum og byrja nú þegar á að þvera Gufufjörð og Djúpafjörð og losna sem fyrst við Ódrjúgsháls. Síðan þegar niðurstaðan fengist í þetta margra ára deilumál yrði vegagerð í Þorskafirði boðin út og vonandi yrði hægt að gera það sem allra fyrst.

Nú er matsskýrslan komin fram og á morgun, alla vega samkvæmt fréttum, mun Skipulagsstofnun skila áliti sínu um málið. Vonandi fara línurnar þá að skýrast í málinu.

Núverandi hæstv. samgönguráðherra hefur talað á þann veg að forgangsraðað verði til þessara framkvæmda um leið og niðurstaða fæst í málið. En við erum bara með 200 milljónir núna á áætluninni til þess að vinna að þessu verkefni og við komumst nú ekki langt með það. Þar sem núna er farið að glitta verulega í endamarkið, að Skipulagsstofnun skili af sér, langar mig að spyrja hæstv. samgönguráðherra hvort hann viti eitthvað um málið, hvort hann geti upplýst okkur hér og nú hvort einhver von sé um að niðurstaða og sátt fáist.

Í ræðu minni hef ég rætt efni 1. og 4. spurningar fyrirspurnarinnar og spyr að lokum:

Hvenær telur hæstv. ráðherra að hægt verði að hefja umræddar framkvæmdir við Vestfjarðaveg ef niðurstöðurnar verða jákvæðar?

Verði niðurstöður matsferlis neikvæðar, kemur þá til greina að skipta verkefninu upp, eins og ég ræddi hér að framan?