146. löggjafarþing — 48. fundur,  27. mars 2017.

tryggingagjald.

221. mál
[19:29]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Smári McCarthy) (P):

Frú forseti. Ég þakka hæstv. fjármála- og efnahagsráðherra fyrir mjög gott svar. Það er áhugavert að heyra þessar tölur, 90% álagðra gjalda hjá smærri fyrirtækjum en 45% hjá stórum. Þetta vekur mig til umhugsunar um hvort ekki sé tilefni til að skoða einhvers konar þrepaskiptingar eða einhvers konar afslætti til smærri fyrirtækja. Eins og þekkt er eru smærri fyrirtæki oft í kringum 97% allra fyrirtækja, minnir mig, að meðaltalið sé í Evrópusambandslöndunum, ég þekki ekki hlutfallið hér. Auðvitað eru þau með tiltölulega marga í vinnu sem hlutfall af heildarvinnumarkaðnum. Þarna er því um talsvert stóran bita að ræða.

Einnig langar mig til að spyrja frekar hvort binda mætti þetta einhvern veginn við nýsköpun eða vera einhvers konar hvatning til smærri fyrirtækja sem standa í nýsköpun og rannsóknum og þróun, sem auðvitað skiptir miklu máli fyrir hagkerfið okkar.

Það er alltaf áhugaverð umræða um tryggingagjaldið og í rauninni fagna ég bæði svari hæstv. ráðherra og sömuleiðis því að hann bað mig í rauninni um að spyrja sig aftur í haust einhvern tímann. Ég vona að hann geti komið að máli við mig og sagt mér hvenær þessi spurning er tímabær, vegna þess að ég skil að það er mikið að gera og auðvitað tekur langan tíma að greina svona lagað. En ég þakka fyrir svarið og hlakka til að heyra kannski frekari svör.