148. löggjafarþing — 48. fundur,  12. apr. 2018.

fjármálaáætlun 2019--2023.

494. mál
[15:31]
Horfa

umhverfis- og auðlindaráðherra (Guðmundur Ingi Guðbrandsson):

Herra forseti. Það er nú alltaf gott þegar blóðið byrjar að renna. Það sem ég vil taka undir í máli hv. þingmanns er ekki síst það að þarna eru auðvitað hagsmunir náttúruverndar í húfi en ekki síður hagsmunir sveitarfélagsins. Það má benda á að fyrir sveitarfélagið eru hagsmunir fólgnir í báðum hugmyndum, má kannski segja, þjóðgarði annars vegar og virkjun hins vegar. Þetta eru mismunandi hagsmunir.

Sveitarfélagið hefur bent á að það komi ákveðnar tekjur inn í gegnum virkjunina ef af henni verður. Á sama hátt hefur verið bent á að þjóðgarður myndi væntanlega líka koma inn með tekjur til sveitarfélagsins. Það hefur hins vegar ekki verið kannað, því miður. Ég held að það væri mjög æskilegt sem fyrsta skref að skoða hvaða möguleikar felast í því. Í stjórnarsáttmálanum segir að möguleikar á frekari þjóðgörðum verði kannaðir.

Það er hins vegar alveg ljóst að það var samþykkt á sínum tíma að þessi virkjun færi í nýtingarflokk rammaáætlunar. Þar með var málið í raun úr höndum þingsins og er komið á þann stað þar sem það er sveitarstjórnarinnar að taka ákvörðun um hvort þarna verði af framkvæmd eða ekki. Núna standa yfir skipulagsbreytingar. Það er ekki búið að ganga frá þeim. Ég vil bara taka undir það með þingmanninum að ég tel að þarna sé um mjög verðmætt svæði að ræða, mjög verðmæt víðerni sem eru ákveðin gersemi fyrir Vestfirðinga en ekki síður alla Íslendinga.