148. löggjafarþing — 48. fundur,  12. apr. 2018.

fjármálaáætlun 2019--2023.

494. mál
[18:19]
Horfa

mennta- og menningarmálaráðherra (Lilja Alfreðsdóttir) (F):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir mjög gott innlegg um stöðu drengja í íslensku skólakerfi og framtíðarhorfur þeirra. Ég vil kannski áður en ég vík að því nefna að það er ljóst að endurreisn íslenska menntakerfisins verður gerð úti í skólasamfélaginu. Við sem sitjum hér sköpum ákveðinn ramma og við erum að gera það með því að auka fjárframlög, en við erum, eins og hv. þingmaður þekkir mjög vel, hefur sjálfur starfað á þeim vettvangi, með alveg gríðarlega mikið af öflugu skólafólki úti um allt land á öllum skólastigum.

Varðandi stöðu ungra drengja í íslensku skólakerfi þá er ég sammála hv. þingmanni, ég hef af því áhyggjur. Ég hef að sjálfsögðu áhyggjur af því að brotthvarf þeirra er talsvert meira, þeim gengur verr er varðar lesskilning og að auka hann. Ég vil taka þátt í því með hv. þingmanni að gera hreinlega úttekt á því hvers vegna staðan sé með þessum hætti. Við vorum núna að birta á heimasíðu mennta- og menningarmálaráðuneytisins samevrópska skýrslu um stöðu háskólanema í Evrópu og Ísland er að taka þátt í fyrsta sinn. Eitt af því sem kemur þar fram er að 63% allra þeirra sem sækja nám á háskólastiginu eru konur. Við sjáum að þróunin þar hefur líka verið sú að konum er áfram að fjölga. Það er auðvitað mjög gott, en það er hins vegar ekki gott að það sé kominn svona ofboðslega mikill kynjamunur er varðar lykiláskoranir eins og brotthvarf og stöðu viðkomandi hóps í menntakerfinu.