148. löggjafarþing — 48. fundur,  12. apr. 2018.

fjármálaáætlun 2019--2023.

494. mál
[23:12]
Horfa

Þorsteinn Víglundsson (V):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra svarið. Ég fagna því að það sé markmið þessarar ríkisstjórnar að afnema þakið á endurgreiðslum vegna þróunarkostnaðar. Ég held að það sé mjög mikilvægt skref sem lengi hefur verið kallað eftir. Það er ánægjulegt að sjá það gerast.

Ég sakna þess hins vegar að við leggjum ekki meiri metnað af hálfu hins opinbera í framlög í samkeppnissjóði á vegum nýsköpunar og þróunar, að veita aukna styrki inn í þetta umhverfi. Ég held að það skipti gríðarlega miklu máli og sé á endanum mjög góð fjárfesting fyrir íslenskt samfélag ef við ætlum að byggja á nýsköpunar- og þekkingarsamfélagi fram á veginn. Ég held að það sé gríðarlega mikilvægt að við hverfum frá þessum miklu auðlindaáherslum okkar í vexti atvinnulífsins og horfum til tækifæranna sem þarna munu klárlega vera í framtíðinni. Við höfum margt til brunns að bera, samanber þetta sterka, öfluga nýsköpunargen, en við þurfum að búa þessum fyrirtækjum miklu betra og samkeppnishæfara rekstrarumhverfi.

Þar er auðvitað gengisóstöðugleikinn efstur á blaði. Hátt vaxtastig sömuleiðis skiptir gríðarlega miklu máli. Þar er aðgengi þessara fyrirtækja ekki með sama hætti að fjármagni og þeim býðst í nágrannalöndum okkar. Það er verulegur annmarki á rekstrarumhverfi þessara fyrirtækja en það eru aðrir þættir sem mér þætti líka áhugavert að heyra skoðanir ráðherra á og nánari útlistun á áformum stjórnvalda. Ég hjó t.d. eftir því í fjármálaáætluninni að ráðgert er að framkvæma samkeppnismat á lögum og reglum valinna atvinnugreina. Það tel ég mjög ánægjulegt skref, teldi reyndar að við ættum að framkvæma samkeppnismat á lögum og reglum almennt fyrir allt atvinnulífið. En mér þætti líka áhugavert að heyra hverjum yrði falið að framkvæma slíkt samkeppnismat. Ég veit að t.d. OECD hefur sérhæft sig í slíku mati og gert það með mjög góðum árangri. Ég held að þar þurfum við ekki að finna upp hjólið heldur þvert á móti einmitt að nýta okkur þekkingu og reynslu þeirra sem gert hafa þetta áður.