150. löggjafarþing — 48. fundur,  17. des. 2019.

afleiðingar óveðursins í síðustu viku og viðbrögð stjórnvalda, munnleg skýrsla forsætisráðherra. - Ein umræða.

[16:23]
Horfa

Smári McCarthy (P):

Herra forseti. Gamalt máltæki segir að betri sé húsbruni en hvalreki á fyrsta ári. Í máltækinu kristallast sú dökka heimsmynd að best sé að venjast því að allt geti farið til fjandans. Helsta þversögn velgengninnar er að henni fylgir trú á áframhaldandi velgengni sem á sér ekki stoð í neinu nema minnkandi skilning á því hversu illa getur farið. Stærstan hluta 20. aldar voru allir Íslendingar fullkomlega meðvitaðir um eigin vanmátt gagnvart náttúruöflunum. Ég man t.d. eftir í æsku minni reglulegum prufukeyrslum á almannavarnaflautunum í Vestmannaeyjum og við byggðum bæi landsins og tengingar á milli þeirra með skilningi á því að allt getur gerst; snjóflóð, eldgos, hlaup og fárviðri. Þegar við töluðum um að við byggjum í harðbýlu landi var það vegna þess að við skildum hættuna en ekki til að berja okkur á brjóst yfir því hvað við værum töff.

Forseti. Viðbúnaður kostar pening. Það kostar að kaupa sig fram hjá náttúruöflunum. Góðir innviðir eru kaskótrygging samfélagsins. Lengi vel var góður skilningur á mikilvægi traustra innviða en eftir því sem nýfrjálshyggjuhugmyndir um viðstöðulausan excel-gróða á kostnað alls annars fóru vaxandi minnkaði vilji ríkisstjórna til að fjármagna almannaöryggi. Núverandi ríkisstjórn hefur því miður haldið sig við þá hættulegu stefnu þrátt fyrir fögur fyrirheit. Flokkarnir þrír lofuðu allir umfangsmikilli innviðauppbyggingu fyrir kosningar og nota raunar þær meintu fyrirætlanir sem sína helstu afsökun fyrir stjórnarsamstarfinu. Nú skal fara í innviðauppbyggingu, segja þau, en tveimur árum síðar ætla þau að setja innviðaöryggið í nefnd sem á að skila tillögum í mars á næsta ári. Þessi sama ríkisstjórn leggur svo til samgönguáætlun sem svo gott sem tryggir stöðnun í innviðauppbyggingu.

Það er bein tenging milli vanvilja ríkisstjórnarinnar til að fjármagna verkefni á borð við t.d. byggingu á nýrri Ölfusárbrú án aðkomu einkaaðila og því að vararafstöðvar hafa verið fjarlægðar úr þeim bæjum þar sem komnar voru tvær raftengingar, því að eins og allir vita geta ekki fleiri en tveir staurar eða jafnvel fleiri en tveir staurar verið felldir af vindi á sama svæði. Og slys gerast aldrei á brúm og vondir hlutir gerast nánast alltaf á útvöldum stöðum eða í útlöndum, er það ekki?

Viðhorf síðkapítalismans er að hvergi megi vera neitt hold á neinu, allt eigi að vera excel-skilvirkt en ekkert má vera samfélagslega skilvirkt. Aldrei má byggja upp fyrir fólkið nema tryggt sé að einhver græði. Ríkisstjórn sem stærir sig af stöðugleika verður að tala skýrt um það hvað hún meinar með stöðugleika. Sá vafasami stöðugleiki sem Sjálfstæðisflokkurinn hefur boðað áratugum saman hefur leitt af sér hvert fyrirsjáanlega stórslysið á fætur öðru.

Forseti. Ég er ekki að eltast við að gera þetta tiltekna óveður að pólitísku umræðuefni en við verðum að horfa á stóru myndina. Þessi umræða snýst ekki um veður eða storma eða náttúruöfl, hún snýst um þrautseigju, um seiglu. Stormurinn sem gekk yfir í síðustu viku var öflugur en hann var ekki á nokkurn hátt einstakur. Við höfum t.d. séð storma eins og þá sem minnst var á áðan. Við vitum að svona stormar koma kannski á fimm til tíu ára fresti og við kunnum að undirbúa okkur og höfum gert það vel. Það er til marks um góða innviði þess tíma að ekki hafi farið verr en núna fór samt verr en þörf var á vegna brothættra innviða nútímans, ekki vegna þess að einn einstaklingur hafi brugðist heldur vegna þess að stjórnmálamenningin og stofnanamenningin brást. Það er pólitísk ákvörðun að eyða seiglu úr grunnstoðum landsins. Þó er ástæða til að hrósa viðbragðsaðilum fyrir vel unnin störf, ekki síst björgunarsveitum landsins sem eru magnaðar og eiga að njóta alls þess stuðnings sem við getum boðið þeim, en þær eiga ekki að vera staðgengill fyrir fjárfestingar ríkisins í innviðum og viðbúnaði.

Forseti. Tillaga hinna frjálslyndu Pírata í þessum efnum er að við tökum upp eldra og íhaldssamara viðhorf, að við fjarlægjumst hvalrekahagkerfi excel-snillinganna þar sem má aldrei gera neitt sem kostar nokkuð og byggjum þess í stað álagsþol inn í allt samfélagið með því að fjárfesta í bestu mögulegu innviðum og bíða ekki eftir því að einkaaðilar finnist sem vilja græða á því. Við þurfum að setja aðför stjórnmálanna að seiglu kerfisins í samhengi við loftslagsbreytingar. Fyrir liggur að veðurofsi eykst vegna samspils sjávarhita og lofthita, meiri hiti, meiri kuldi, sterkari vindar, ýktari sjávarföll og jafnvel aukin hætta á jarðskjálftum og eldgosum eftir því sem léttist á jöklum og jarðskorpan hreyfist. Við verðum að horfa heildstætt og raunsætt á seiglu íslenskra innviða. Við munum mögulega þurfa að reiða okkur töluvert meira á viðnámsþrótt þeirra á komandi árum og ef við erum heppin getum við jafnvel sofið betur ef við vitum að við erum með samfélagið í kaskó.