150. löggjafarþing — 48. fundur,  17. des. 2019.

fæðingar- og foreldraorlof.

393. mál
[17:38]
Horfa

Frsm. meiri hluta velfn. (Ólafur Þór Gunnarsson) (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þm. Þorsteini Víglundssyni fyrir andsvarið. Hann segist ekki skilja þennan meinta vandræðagang. Ég veit ekki hversu vel hv. þingmaður hefur kynnt sér þær umsagnir og þau orðaskipti sem hafa farið fram í þingsalnum en þau eru og hafa verið í allar áttir. Ég hef allan tímann sem framsögumaður þessa máls litið svo á að markmiðið í málinu væri að ná sem flestum þingmönnum í salnum inn á það að samþykkja 12 mánaða fæðingarorlof. Það tókst í gær. Ég trúi því að með þessari aðferð náum við nokkurs konar bestun á lendingu sem er hvorki fullkomin sátt um í þinginu, þ.e. með skiptinguna, né fullkomin sátt um hjá þeim umsagnaraðilum sem hafa gefið þinginu umsagnir. Við vitum að í gangi er heildarendurskoðun á fæðingarorlofslöggjöfinni, eins og hefur margkomið fram. Með því að fara fram með þessum hætti erum við að tryggja að sú niðurstaða sem þingið kemst að með fjórir, fjórir, tveir skiptingunni verði lögð til grundvallar, sama hvað annað kynni að koma út úr þeirri endurskoðun. Ég heyrði ekki betur í morgun en að það væri það sem hv. þingmenn væru að kalla eftir. Ég gat ekki skilið þá umræðu á nokkurn annan hátt en að þingmenn legðu mikið upp úr því að við héldum okkur við það merkilega fyrirbæri í íslensku fæðingarorlofslöggjöfinni að það er nánast skylda á báðum foreldrum að taka fjóra mánuði hvort. Það er ekki þannig alls staðar í heiminum og þess vegna erum við að gera breytingarnar eins og þær eru núna, að tryggja að þessi grunnur liggi fyrir.